Meiðsl rakin til gólfefnis
Gólfefnið í B-sal íþróttahússins við Sunnubraut er orðið hættulegt íþróttafólki sem þar æfir og keppir. Rekja má fjölda álagsmeiðsla beint til ástands gólfsins.
Fjallar var um málið á síðasta fundi íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar. Fyrir lá umsögn sjúkraþjálfara þar sem fram kemur að margir leikmenn hafi leitað til hans með álagsmeiðsl sem rekja megi beint til þess að gólfefnið sé orðið allt of hart til æfinga og keppni. Í umsögninni er jafnframt bent á að Körfuknattleikssambands Íslands muni ekki heimila keppni á dúkgólfum frá og með árinu 2012.
Íþrótta- og tómstundaráð tekur undir áhyggjur sjúkraþjálfarans og ætlar að beita sér fyrir því að skipt verði um gólfefni í salnum sem allra fyrst.
Börn spila körfubolta í B-salnum. Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni beint.