Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 18. desember 2001 kl. 00:10

Megna lykt leggur tíðum yfir nærliggjandi íbúðabyggð í Innri Njarðvík

Íbúar í Innri Njarðvík hafa gefist upp á óþef frá fiskvinnslu Laugafisks að Njarðvíkurbraut 62-66 í Innri Njarðvík. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur látið málið til sín taka og telur umhverfismál fyrirtækisins í óviðunandi ástandi. Fyrirtækið er undir eftirliti og fylgst verður með lyktarmengun frá fyrirtækinu og starfsleyfið ekki endurnýjað ef úrbætur verða ekki gerðar.Bókun vegna Laugafisks var lögð fram á síðasta fundi Heilbrigðisnefndar Suðurnesja. Eftirfarandi texti er af heimasíðunni nefndarinnar:

Þann 3. okt. sl. auglýsti HES drög að starfsleyfi fyrir Laugafisk Njarðvíkurbraut 62-66 til umsagnar samkv. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Athugasemdir í formi bréfa og undirskriftarlista bárust frá íbúum og fyrirtækjum í Innri Njarðvík þar sem fyrirhugaðri starfsleyfisveitingu var mótmælt vegna sjón og lyktmengunar.

Embættinu barst einnig bréf frá forráðamönnum Laugafisks hf. þar sem þeir segjast geta sett upp mengunarvarnarbúnað fyrir 15. nóvember 2001 sem komi í veg fyrir lyktarmengun frá fyrirtækinu.

Nefndin telur að umhverfismál fyrirtækisins séu í óviðunandi ástandi. Megna lykt leggur tíðum yfir nærliggjandi íbúðabyggð auk þess sem umgengni utanhúss er ábótavant. Af þessum ástæðum og að teknu tilliti til athugasemda sem nefndinni hefur borist hefur nefndin ákveðið að veita Laugafiski hf. starfsleyfi til 1 september 2002. Nefndin felur heilbrigðisfulltrúum að fylgjast með því hvort lyktarmengun verði í nánasta umhverfi fyrirtækisins á starfsleyfistímanum. Ef svo verður mun heilbrigðisnefndin ekki endurnýja starfsleyfið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024