Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Megas fyllti Hvalsneskirkju upp í rjáfur
Mánudagur 24. október 2005 kl. 11:27

Megas fyllti Hvalsneskirkju upp í rjáfur

Megas fyllti Hvalsneskirkju upp í rjáfur þegar hann söng til séra Hallgríms Péturssonar Passíusálmana og fleiri lög sín sem tengjast kveðskap Hallgríms. Syðri-ár flokkurinn spilaði með Megasi og var hreint frábær stemming á þessum tónleikum sem voru hluti af menningardögum í kirkjum á Suðurnesjum, sem fram fóru í gær. Séra Gunnar Kristjánsson flutti mjög gott erindi um Hallgrím áður en tónleikarnir byrjuðu.

Menningardagurinn í kirkjum á Suðurnesjum tókst með eindæmum vel í þetta sinn og sóttu um 1200 manns atburðina í 8 kirkjum Suðurnesjamanna. Dagskráin var mjög fjölbreytt og var víðast fullt út úr dyrum.

Karlakór Keflavíkur söng rammíslensk sjómannalög eins og Stjána Bláa í Útskálum fyrir troðfullri kirkju en þar hélt prófessor Gísli Gunnarsson erindi um sjómenn ,, Feigum verður forðað."

Guðrún Gunnarsdóttir og Friðrik Ómar sungu í Ytri Njarðvíkurkirkju og er það ekki í fyrsta sinn sem Guðrún syngur lögin hennar Ellýjar Vilhjálms en með henni söng Friðrik Ómar lögin hans Vilhjálms og voru um 300 manns í kirkjunni.

Barnakór Akurskóla í Innri-Njarðvík söng sig inn í hjörtu kirkjugesta í kirkjunni í Innri-Njarðvík en þar var einnig fyrirlestur Guðmundar Inga Leifssonar skólastjóra um fyrrum rektor Skálholtsskóla Jón Þorkelsson en hann ánafnaði íslenskum börnum eftir sinn dag milli 200-300 milljónum króna á núvirði.

Á fyrirlestri í Kirkjuvogskirkju um landnám á Reykjanesi kom fram að sennilega hefur Reykjanesið verið numið um 871 ef miðað er við kolefnisrannsókn sem tekin hafa verið úr grunni húsarústa sem hafa verið grafin upp í Höfnum.

Dagskrá um Sigvalda Kaldalóns fyllti kirkjuna í Grindavík og var þar mjög fjölbreytt dagskrá flutt af grindvískum listamönnum. Í Keflavíkurkirkju flutti Hákon Leifsson erindi um kórtónlist á Íslandi.

Töluverður hópur fólks fór í fleiri en eina kirkju og mátti sjá andlit sem voru í öllum kirkjunum átta. Þetta kirkjurallí stóð frá kl. 10:00 um morguninn og endaði í Grindavík nú sem fyrr þar sem Kristján Pálsson formaður undirbúningsnefndar sleit menningardeginum þegar klukkan var gengin í 10 um kvöldið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024