Meðferð flugelda verði takmörkuð í og við Vogatjörn
Umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Voga fjallaði um Vogatjörn og verndun lífríkis tjarnarinnar á fundi sínum á dögunum.
„Umhverfisnefnd skorar á bæjarstjórn að sjá til þess að verndun Vogatjarnar, sem er á náttúruminjaskrá meðal annars vegna lífríkis tjarnarinnar og fuglalífs, sé virt og takmarka meðferð flugelda í og við tjörnina,“ segir í afgreiðslu umhverfisnefndar.
Flugeldar voru sprengdir í tjörninni í mikilli flugeldasýningu nú síðsumars en sýningin var haldin á þeirri helgi sem Vogadagar fara vanalega fram. Engin var bæjarhátíðin en bæjarbúum var boðið upp á veglega flugeldasýningu sem ratað hefur á borð umhverfisnefndar.