Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Meðalverð fasteigna á Suðurnesjum í hæstu hæðum
Föstudagur 13. apríl 2018 kl. 11:00

Meðalverð fasteigna á Suðurnesjum í hæstu hæðum

-meðalverð í fjölbýli komið í 300 þús. kr.

Meðalverð íbúða í fjölbýli í Reykjanesbæ síðustu þrjá mánuði samkvæmt söluskýrslum til Íbúðalánasjóðs eru 300 þús. krónur á fermetrann. Meðalverð á öðrum eignum og eignum í heild á Suðurnesjum er um 250 þús. kr. á fermetrann. Guðmundur Sigfinnsson, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði segir raunverð fasteigna á Suðurnesjum hafa náð nýjum hæðum.

Guðmundur greindi frá þessu á framkvæmdaþingi sem Reykjanesbær stóð fyrir í Hljómahöllinni í vikunni. Í máli hans kom m.a. fram að fasteignaverð hafi hækkað mun meira á Suðurnesjum en landsmeðaltal. Hækkanir hafa einnig verið mun meiri á endanlegu söluverði en ásettu verði á fasteignum á Suðurnesjum en höfuðborgarsvæðinu að því er fram kom í erindi Guðmundar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leigumarkaðurinn í Reykjanesbæ er samkvæmt skýrslu Íbúðalánasjóðs sá virkasti á landinu og nemur hækkun undanfarinna tólf mánaða 27% en var 10% á höfuðborgarsvæðinu. Frá ársbyrjun 2015 til dagsins í dag er hækkunin í Reykjanesbæ 50% og fermetraverð komið í 1500 kr./m2. Stöðugur vöxtur hefur verið í Airbnb útleigu en í júlí 2017 voru 150 íbúðir í Reykjanesbæ en 125 í febrúar 2018.

Á framkvæmdaþinginu var farið yfir framkvæmdir hjá nokkrum af stórum aðilum sem standa í bygggingaframkvæmdum á Suðurnesjum. Gert er ráð fyrir í skipulagi bæjarins byggingu nærri þrjú þúsund íbúða í Keflavík og Njarðvík á næstu árum. Tvö þúsund íbúðir eru í nýtingu á Ásbrú og möguleiki á að fjölga þeim verulega. Miðað við þetta má búast við áframhaldandi eftirspurn á fasteignamarkaði en fasteignasalar sögðu við VF nýlega að markaðurinn hafi aðeins róast að undanförnu og eignir selst nálægt ásettu verði en ekki yfir því eins og raunin hafi verið á síðustu árum.

Horfur eru samkvæmt skýrslu ILS á áframhaldandi umframvexti í mannfjölda á Suðurnesjum.  Möguleg sviðsmynd geri ráð fyrir því að árið 2021 verði íbúafjöldi í Reykjanesbæ komin í 21 þúsund manns og 25 þúsund árið 2030.  

Ljóst er að mannfjölgun er drifin áfram af miklum drifkrafti í atvinnulífinu og þá sérstaklega á Keflavíkurflugvelli en auk áframhaldandi vaxtar í ferðaþjónustunni er gríðarlegar framkvæmdir á teikniborðinu við flugstöðina fyrir tugi milljarða. Verktakar munu þurfa mikinn mannskap til að sinna þeim verkefnum á næstu árum og mun það ýta undir enn frekari íbúafjölgun á Suðurnesjum.