Með tvö kíló af amfetamíni í farangri
Rúmlega þrítugur karlmaður situr nú í gæsluvarðhaldi eftir að hann reyndi að smygla til landsins tveimur kílóum af amfetamíni. Maðurinn, sem er pólskur, var að koma frá Varsjá í byrjun mánaðarins þegar tollgæsla stöðvaði för hans í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við hefðbundið eftirlit. Lögreglan á Suðurnesjum handtók hann og reyndist hann vera með tvö kíló af amfetamíni vandlega falin í farangri sínum.
Fleiri hafa verið yfirheyrðir við rannsókn málsins, en enginn handtekinn. Málið er enn til rannsóknar hjá lögreglu og var gæsluvarðhald yfir Pólverjanum framlengt í gær.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum til lögreglu um fíkniefnamál.