Með þýfið í kryppu á bakinu
Þjófnaður úr verslun í Reykjanesbæ var tilkynntur til lögreglunnar á Suðurnesjum í fyrrakvöld. Eigandi hennar var búinn að loka, en hafði láðst að setja almennilega í lás, þegar þrír menn komu skyndilega inn.
Einn þeirra, sem sýnilega var ölvaður, tók hann tali meðan hinir tveir völsuðu um verslunina. Eigandinn bar þá vinsamlegast um að yfirgefa staðinn þar sem búið væri að loka. Þeir urðu fljótlega við því en um leið og þeir snöruðu sér út í rökkrið tók verslunareigandinn eftir því að einn þeirra var þá kominn með kryppu á bakið og áttaði hann sig þá á því að þeir höfðu látið greipar sópa. Við athugun kom í ljós að þeir höfðu stolið varningi fyrir á þriðja tug þúsunda. Lögregla rannsakar málið.