Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Með kókaín í hárkollunni
Laugardagur 19. mars 2005 kl. 12:36

Með kókaín í hárkollunni

Erlend kona á sjötugsaldri er í gæsluvarðhaldi eftir að hún var tekin með hátt í eitt kíló af kókaíni í Leifsstöð. Fíkniefnin voru falin í hárkollu sem konan bar. Lögregla hefur ekki handtekið fleiri vegna málsins en rannsókn þess heldur áfram, að sögn Ríkisútvarpsins.

Konan er 64 ára, með tvöfalt ríkisfang, hollenskt og bandarískt en fædd í Hollandi. Hún kom hingað til lands á laugardaginn var frá Amsterdam. Grunsemdir vöknuðu hjá tollvörðum um að hún hefði óhreint mjöl í pokahorninu, hefðbundin fíkniefnaleit skilaði í fyrstu ekki árangri en eftir að tollverðirnir fóru að þreifa í hári konunnar styrktist grunur þeirra um að hún væri að reyna að smygla fíkniefnum hingað. Konan er heyrnarskert og samskiptin við tollverðina voru í fyrstu erfiðleikum háð en loks játaði hún að vera með hárkollu og að ráði varð að lögreglumenn á Keflavíkurflugvelli fóru með konuna til tæknideildar Lögreglunnar í Reykjavík. Í ljós kom að hárkollan hafði verið saumuð á konuna og um 800 grömmum af kókaíni komið mjög haganlega fyrir í henni.

Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, segir að þetta sé óvenjulegasta smyglaðferð sem hann hafi séð og hrósar sínum mönnum fyrir árveknina. Jóhann segir að athygli yfirvalda annars staðar verði vakin á málinu til að þau geti séð við þeim sem ætla að beita þessari aðferð.

Tollverðir í Leifsstöð hafa tekið mikið af kókaíni í sína vörslu undanfarna mánuði en ætla má að söluvirði efnanna sem konan var með sé á þriðja tug milljóna króna. Það fer þó eftir styrkleika kókaínsins og hversu mikið er hægt að drýgja það.

Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík fer með rannsókn málsins og erlenda konan hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til fyrsta apríl. Talið er að hún sé svokallað burðardýr og grunur leikur á að hún hafi komið áður til landsins. Ætla má að konan hafi átt sér samverkamenn hér á landi sem fengið hafi hana til verksins.

Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður fíkniefnadeildarinnar, segir að rannsóknin haldi áfram en fleiri hafi þó ekki verið handteknir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024