Með kannabis og táragas
Lögreglan á Suðurnesjum hafði í gærkvöld afskipti af rúmlega tvítugri konu sem grunuð var um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hún var handtekin og færð á lögreglustöð. Við leit í bifreiðinni sem hún ók fundu lögreglumenn kannabisefni í stokk á milli framsætanna. Við húsleit heima hjá konunni fannst svo svartur táragasbrúsi sem lögregla haldlagði. Konan hefur áður gerst sek um fíkniefnaakstur og var þar að auki svipt ökuréttindum.
Þá var karlmaður á þrítugsaldri, sem einnig ók sviptur ökuréttindum, handtekinn og færður á lögreglustöð, grunaður um fíkniefnaakstur. Þar afhenti hann lítilræði af fíkniefnum sem hann var með á sér.