Með hnúajárn í fíkniefnaakstri
Lögreglan á Suðurnesjum tók tvo ökumenn úr umferð um helgina þar sem þeir voru undir áhrifum fíkniefna við aksturinn. Annar þeirra, karlmaður á þrítugsaldri, reyndist vera með hnúajárn í vasa sínum. Auk aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna á hann því einnig kæru yfir höfði sér vegna brots á vopnalögum.
Þá hafa þrettán ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur á undanförnum dögum í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Flestir voru á ferð á Reykjanesbraut. Sá sem hraðast ók mældist á 127 km. hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. á klukkustund. Af þessum þrettán ökumönnum voru þrír sem ekki höfðu náð átján ára aldri og var forráðamönnum þeirra gert viðvart.
Loks voru tveir ökumenn stöðvaðir sem báðir reyndust vera ölvaðir undir stýri.