Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Með hnífa í báðum höndum í Sandgerði
Mánudagur 23. júní 2003 kl. 10:24

Með hnífa í báðum höndum í Sandgerði

Lögreglan í Keflavík hafði í nógu að snúast um síðustu helgi. Aðfararnótt sunnudagsins tók lögreglan landa af aðila í Keflavík og fékk upplýsingar hjá sama aðila um landasala sem hann hafði keypt mjöðinn af. Tilkynnt var um slagsmál á Duusgötu í Keflavík, en annar aðilinn var fluttur með skurð á enni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Uppúr klukkan hálf fjögur aðfararnótt sunnudagsins var óskað eftir aðstoð Lögreglu og sjúkrabifreiðar á Hafnargötu í Sandgerði vegna manns sem var slasaður í andliti. Sá slasaði hafði verið með hnífa í báðum höndum og ráðist að manni, sem varði sig með því að afvopna hann og slá hann í andlitið. Sá slasaði var fluttur í sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem læknir hlúði að honum.

dagbók lögreglu


Föstudagurinn 20. júní
Á næturvaktinni voru þrír ökumenn kærðir fyrir hraðakstur á Reykjanesbraut. Tveir þeirra voru á 113 km þar sem hámarkshraði er 90 km.
Kl. 10:40 var tilkynnt um skemmdarverk á nýsteyptum gangstéttarkanti á Aðalgötu í Keflavík milli Iðavalla og Reykjanesbrautar. Atvikið hafði átt sér stað þann 18. júní. Af verksummerkjum að dæma hafði einhver gert sér að leik að aka utan í og á gangstéttarkantinum á löngum kafla. Þeir sem kunna að hafa verið vitni að atburði þessum eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í Keflavík.
Kl. 11:47 var lögregla og sjúkralið kallað að gatnamótum Aðalgötu og Iðavalla í Keflavík vegna umferarslyss sem þar hafði orðið. Harður árekstur hafði orðið með jeppabifreið sem ekið var norður Iðavelli og fólksbifreið sem ekið var austur Aðalbraut. Farþegi í fólksbifreiðinni, ung kona, var flutt með sjúkrabifreið til sjúkrahússins í Keflavík en meiðsl munu hafa verið minni háttar. Bifreiðarnar voru báðar fluttar á brott með dráttarbifreið.
Kl. 14:00 var ökumaður fólksbifreiðar kærður fyrir að aka á 125 km hraða á Grindavíkurvegi þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.
Kl. 17:25 var lögregla kölluð að Hafnargötu í Keflavík móts við Sambíó vegna minni háttar áreksturs tveggja fólksbifreiða. Lögreglumenn veittu ökumönnum aðstoð við útfyllingu tjónaskýrslu.
Kl. 18:26 var lögregla og sjúkralið kallað að gatnamótum Hringbrautar og Skólavegar í Keflavík vegna umferarslyss. Þar hafði orðið árekstur með tveimur fólksbifreiðum. Ökumann beggja bifreiða voru fluttir á sjúkrahús í Keflavík með minni háttar meiðsl. Bifreiðarnar voru báðar óökufærar eftir óhappið og voru þær fluttar á brott með dráttarbifreið.

Laugardagur 21. júní
Kl. 01:15 hafði lögreglan afskipti af 3 stúlkum 14 og 15 ára, í miðbæ Keflavíkur sem áttu samkvæmt útivistarreglum að vera komnar til síns heima. Þeim var ekið heim og foreldrum þeirra kynnt útivistarbrotið.
Kl. 03:58 var ökumaður fólksbifreiðar stöðvaður á Hringbraut í Keflavík. Í framhaldi var hann síðan kærður fyrir meinta ölvun við akstur.
Kl. 07:50 Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar og lögreglumenn frá Keflavík fóru að Snorrastaðatjörnum en tilkynning hafði borist um að þar hafði fundist virk sprengja. Sprengjusérfræðingarnir sprengdu sprengjuna. Síðan leituðu þeir að fleiri sprengum á svæðinu og fundu tólf sprengjur til viðbótar. Þeim var öllum eytt. Sprengjur þessar voru allar virkar og því stórhættulegar. Svæðið sem þær fundust á var fyrr á árum skotæfingasvæði stórskotaliðs bandarískra dáta og var sprengjum þá skotið frá svokölluðum Háabjalla og út í hraunið til suðurs í átt að Snorrastaðatjörnum. Þær sprengjur sem hér um ræðir voru allar úr svokölluðum sprengjuvörpum og voru nær allar 80 mm í þvermál.
Kl. 19:28 barst tilkynning um að kona hafi fallið í stiga í húsi í Garði og slasast í andliti. Sjúkrabifreið og lögregla fóru á staðinn. Konan var með áverka í andliti og var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Á næturvaktinni var einn ökumaður kærður fyrir að nota ekki handfrjálsan búnað er hann talaði í farsíma við akstur bifreiðar sinnar.
Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að vera með litaða plastfilmu í framrúðu bifr. Tveir eigendur bifreiða voru kærðir fyrir að leggja á röngum vegarhelmingi.
Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að nota ekki bílbelti við aksturinn.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt þar sem hámarkshraði er 90 km. óku þeir á 124 km og 153 km. Einn ökumaður var kærður fyrir að aka ölvaður. Sex ökumenn voru kærðir fyir að hafa ökuskírteinið ekki meðferðis við aksturinn.
Þrír eigendur bifreiða voru kærðir fyrir fara ekki með bifreiðar sínar til skoðunnar á tilsettum tíma.

Sunnudagurinn 22. júní
Kl. 02:30 tók lögreglan "landaflösku" af aðila í Keflavík í sína vörslu og fékk hjá sama aðila upplýsingar um landasala.
Kl. 02:43 var tilkynnt um slagsmál á Duusgötu í Keflavík sem enduðu með því að annar aðilinn var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með skurð á enni.
Kl. 03:37 var óskað aðstoðar lögreglu og sjúkrabifreiðar á Hafnargötu í Sandgerði vegna manns sem væri slasaður í andliti. Sá slasaði hafði verið með hnífa í báðum höndum og ráðist að manni, sem varði sig með því að afvopna hann og slá hann í andlitið. Sá slasaði var fluttur í sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem læknir hlúði að honum.
Þrír ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur. Tveir ökumenn á voru stöðvaðir fyrir að aka á 112 og 115 km hraða á Grindavíkurvegi þar sem leyfður er 90 km hraði.
Einn ökumvaður var tekin fyrir að aka fram úr um 10 bifreiðum hægra meginn (á vegaröxlinni) þó að mikil umferð væri í báðar áttir og hraði almennt um 90 km.
Á Grindavíkurvegi var ökumaður stöðvaður fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti.
Um kl. 17:00 var eldur laus á Hrinbraut 82 í Keflavík. Þarna kveiknaði í feiti í potti á eldavél. Engar skemmdir urðu í íbúðinni sem er á annari hæð.
Á næturvaktinni voru 3 ökumenn kærðir fyrir að aka um á bifreiðum sínum án skráninganúmers framan á bifreiðunum.
Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt þar sem leyfður hraði er 90 km., sá er hraðast ók var á 125 km hraða.
Einn ökumaður var kærður fyrir að nota ekki bílbelti við aksturinn.
Skráningarnúmer voru tekin af þremur bifreiðum þar sem eigendur þeirra höfðu ekki greitt tryggingar af bifreiðum sínum.
Þá var einn eigandi bifreiðar kærður fyrir að fara ekki með bifreið sína í skoðun á tilsettum tíma.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024