Með haglabyssu í íþróttatösku
Lögreglan á Suðurnesjum haldlagði haglabyssu, sem var í bifreið er lagt var fyrir utan verslun í umdæminu um helgina. Bifreiðin var kyrrstæð og mannlaus þegar lögreglumenn bar að og sáu þeir haglabyssuna í aftursæti hennar. Byssan var í íþróttatösku en hlaup hennar skagaði út í afturrúðu bílsins.
Skömmu síðar bar eiganda byssunnar að. Hann var ekki með skotvopnaskírteini og var honum gerð grein fyrir því að svona meðferð skotvopna væri ekki í lagi, haglabyssan yrði haldlögð og lögregluskýrsla gerð um málið.