Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Með Garðmenn í gíslingu og virðir ekki eigin leikreglur
Rósaselstjarnir nær og Rósaselstorg fjær. Þar vilja Garðmenn koma á skipulagi en geta ekki þar sem ráðherra dregur lappirnar í að samþykkja aðalskipulag. VF-mynd: Hilmar Bragi
Föstudagur 21. júlí 2017 kl. 13:17

Með Garðmenn í gíslingu og virðir ekki eigin leikreglur

— í samþykkt aðalskipulags fyrir Keflavíkurflugvöll

Nýtt aðalskipulag fyrir Keflavíkurflugvöll hefur ekki enn verið staðfest þrátt fyrir að allir lögbundnir afgreiðslufrestir séu liðnir fyrir mánuðum síðan. Umhverfisráðherra dregur lappirnar í málinu og heldur skipulagsmálum í Sveitarfélaginu Garði í gíslingu, en nýtt aðalskipulag flugvallarsvæðisins er forsenda þess að hægt verði að gera breytingar á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Garðs á svæðinu við Rósaselstorg. Garðmenn þurfa m.a. að deiliskipuleggja svæðið fyrir iðnað og verslun.
 
Mikill áhugi er á uppbyggingu í landi Sveitarfélagsins Garðs við Rósasels-torg. Greint hefur verið frá fyrirhuguðum þjónustukjarna undir nafninu Rósasel, þar sem Kaupfélag Suðurnesja hefur hug á að byggja stóran verslunar- og þjónustukjarna. Þá hefur Atlantsolía endurnýjað lóðarumsókn hjá Sveitarfélaginu Garði og fleiri aðilar hafa sýnt uppbyggingu á svæðinu áhuga. Til að sú uppbygging geti átt sér stað þarf að gera breytingar á aðalskipulagi Garðs, en það er ekki hægt fyrr en aðalskipulag Keflavíkurflugvallar hefur verið samþykkt. Keflavíkurflugvöllur er með sérstakt skipulagsvald, þvert á þau sveitarfélög sem eiga land að flugvellinum.

Tók sér tíma langt umfram lögbundinn afgreiðslufrest
 
Skipulagsstofnun tók sér tíma langt umfram lögbundinn afgreiðslufrest til að staðfesta nýtt aðalskipulag Keflavíkurflugvallar, en vísaði aðalskipulaginu að lokum til umhverfisráðherra til afgreiðslu. Umhverfisráðherra hefur nú farið langt umfram lögbundinn afgreiðslufrest og hefur ekki ennþá afgreitt málið. Að öllu eðlilegu hefði Skipulagsstofnun átt að staðfesta skipulagið í maí 2016 og ef umhverfisráðherra virti skipulagsreglugerð hefði ráðherra átt að klára málið 1. maí 2017. Upplýsingar sem Sveitarfélagið Garður hefur núna eru þær að ráðherra mun ekki klára málið fyrr en í fyrsta lagi í lok ágúst nk.
 
Skipulagsyfirvöld í Garði hafa gengið frá breytingu á aðalskipulagi fyrir svæðið, en sú breyting fæst ekki samþykkt fyrr en aðalskipulag Keflavíkurflugvallar hefur verið samþykkt. Samhliða hefur verið unnið að deiliskipulagi fyrir svæðið við Rósaselstorg. Bæjaryfirvöld í Garði sátu fund með Skipulagsstofnun í síðustu viku og eftir þann fund er til skoðunar í Garði að senda inn aðalskipulagsbreytingu sveitarfélagsins og láta reyna á hvort hún fáist samþykkt, þrátt fyrir að aðalskipulag Keflavíkurflugvallar hafi ekki verið samþykkt.

„Valdið okkur miklum vandræðum“
 
„Þessar tafir hafa valdið okkur miklum vandræðum og það eru hagsmunir margra aðila þarna á bakvið. Þessar ótrúlegu tafir á afgreiðslu málsins koma sér mjög illa fyrir sveitarfélagið, flugvallaryfirvöld og fjölmarga aðra aðila sem hafa beðið eftir staðfestingu aðalskipulagsins í meira en eitt ár. Það er dapurlegt að upplifa að stjórnvöld virði ekki þær reglur sem þau setja sjálf og að stjórnsýsla og málsmeðferð Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra sé í því skötulíki sem við blasir í þessu máli,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði í samtali við Víkurfréttir.
 
Magnús segir að svæðið sem um ræðir sé verðmætt til framtíðar og því skipti miklu máli hvernig starfsemi sé sett þar niður. Sveitarfélögin Garður, Sandgerði og Reykjanesbæ hafa verið í samvinnu um heildarsýn fyrir svæðið á Miðnesheiði. Meðal annars hafa sveitarfélögin skoðað hvernig farið var í svipað verkefni við Schiphol-flugvöll í Amsterdam og eiga von á fulltrúum frá Schiphol hingað í haust til frekari kynningar á því verkefni og ráðgjafar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024