Með fullfermi af snjó
Á þessari mynd Gísla Reynissonar af www.aflafrettir.com má sjá hvernig bátar í Grindavíkurhöfn hafa fyllst af snjó í fannferginu mikla í byrjun vikunnar. Þó sjómönnum finnst alltaf gaman af fá fullfermi má gera ráð fyrir að þessi „afli“ hafi ekki verið mikill happafengur í þeirra augum.
Ytri báturinn á myndinni er Gullfari HF og Hraunsvík GK er fyrir innan.
Á vertíðinni 2007 kom Gullfari HF tvívegis að landi með yfir 10 tonn í róðri og stærsti róðurinn var upp á tæp 14 tonn, segir á aflafrettir.com. Sá róður var stærsti róður Gullfara HF síðan 23. apríl árið 2001, þegar báturinn kom með 12,5 tonn að landi. Telja má víst að áhöfn bátsins hafi glaðst mun meira yfir 14 tonnum af fiski heldur en fullfermi af snjó.