Með eld í æðum á Íslandi
Stór hópur af bandarísku ferðaskrifstofufólki heimsótti Stekkjarkot fyrr í vikunni. Hópurinn var hér á vegum Flugleiða og kom í 4 daga ferð til Íslands til að skoða sig um. Þetta er í fyrsta sinn sem svo stór hópur ferðaskrifstofufólks kemur til Suðurnesja í kynningarferð og á þetta eflaust eftir að skila góðum árangri fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Helga Ingmundardóttir, leiðsögumaður og framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu Suðurnesja, og Helga Sigrún Harðardóttir, hjá Markaðs- og atvinnumálaskrifstofunni, tóku á móti hópnum. Kalt var í veðri þennan dag og því neituðu fáir sopanum góða, þó bragðið væri ekki að allra skapi. Hópurinn hélt því uppá Flugstöð að lokinni heimsókn í Stekkjarkot með eld í æðum.