Með blik í auga hópurinn fékk Súluna
Afhending Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar fyrir árið 2017 fór fram við hátíðlega athöfn í Duus Safnahúsum laugardaginn 11. nóv. kl. 14.00. Verðlaunin eru veitt þeim sem auðgað hafa menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í tuttugasta og fyrsta sinn sem Súlan var afhent. Að þessu sinni hlaut menningarhópurinn „Með blik í auga“ verðlaunin fyrir framlag sitt til tónlistarlífs í Reykjanesbæ en frumkvöðlar og stýrimenn hópsins eru þeir Arnór B. Vilbergsson, Guðbrandur Einarsson og Kristján Jóhannsson Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabet Ásberg.
Með blik í auga
Það var fljótlega eftir Ljósanótt 2010, að afloknum hátíðartónleikum í Stapa að Kristján Jóhannsson kom með hugmynd til Arnórs um að „poppa“ upp hina árlegu hátíðartónleika á Ljósanótt og bjóða upp á eitthvað alveg nýtt. Hugmyndin gekk út á að taka fyrir tímabil í íslenskri tónlist, fletta saman tónlist og sögulegum fróðleik og skreyta með ljósmyndum, tóndæmum og fleiru. Þeir félagar hófust handa og náðu að selja menningarfulltrúa þessa hugmynd og auk þess stjórn Tónlistarfélagsins sem var þátttakandi í þessum hátíðartónleikum til að byrja með. Þeir félagar lögðu af stað og tímabilið 1950 til 1970 varð fyrir valinu. Lögin voru valin. Arnór útsetti, Kristján skrifaði handrit og saman völdu þeir söngvara og hljóðfæraleikara. Vinnuheiti sýningarinnar var „Með blik í auga“, tilvísun í þekkt lag Olivers Guðmundssonar í flutningi Hauks Morthens. Aldrei var farið í að finna sýningunni nýtt nafn og hefur hún gengið öll árin undir þessari yfirskrift með ýmsum undirtitlum. Sýningin var frumsýnd á Ljósanótt 2011 og viðtökur áhorfenda fóru fram úr björtustu vonum þeirra félaga. Eitt skyggði þó á, þeir Arnór og Kristján eru fínir í að fá hugmyndir og koma þeim af stað en þeir komust fljótlega að því að nauðsynlegt væri að fá inn þriðja aðilann sem gæti séð um og stýrt fjármálum og framkvæmd sýningarinnar. Ekki þurfti að leita langt eða lengi að slíkum einstaklingi og var hljómborðsleikari sýningarinnar Guðbrandur Einarsson munstraður í gengið.
Þannig hefur þetta gengið í 7 ár. Þeir félagar hafa sett upp 7 sýningar. Með blik í auga, Gærur, glimmer og gaddavír ári seinna og Með blik í auga, Hanakambar hárlakk og herðapúðar árið 2013. Á þessum þremur sýningum var íslensk tónlist tekin fyrir og þá einn áratugur í senn. Þegar kom inn á árið 2014 varð þeim ljóst að leita yrði nýrra leiða til að viðhalda stemningunni og láta sýninguna vaxa og þroskast. Sýningin Keflavík og kanaútvarpið var með öðrum hætti en hinar fyrri. Lögin úr gamla kanaútvarpinu var uppistaðan í þeirri sýningu auk þess sem leitað var til söngvara utan svæðis. Síðan fylgdu Lög unga fólksins 2015, Hvernig ertu í Kántrýinu 2016 og Með Soul í auga 2017. Hafa margir þekktustu söngvarar landsins tekið þátt í þessu tónlistarverkefni og sumir oftar en einu sinni. Nú eru sýningarnar orðnar sjö eins og fyrr segir. Sami bakhópur hefur verið með meira og minna frá upphafi og samheldni og eindrægni mikil í hópnum. Þeim hefur tekist að skapa sýningu sem stenst allan samanburð við það sem best gerist á þessu sviði og er orðin algjörlega ómissandi liður í Ljósanótt í Reykjanesbæ.
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson afhenti Arnóri, Guðbrandi og Kristjáni verðlaunin. Við sama tækifæri var styrktar- og stuðningsaðilum Ljósanætur, menningar- og fjölskylduhátíðar Reykjanesbæjar, sem nú var haldin var í átjánda sinn, þakkaður stuðningurinn. Fram kom í máli Kjartans Más að bæjarbúa sjálfir yrðu virkari í viðburðahaldinu með hverju árinu sem liði og þeirra framlag ásamt fjárhagslegum stuðningi gerði það að verkum að Ljósanótt væri í hópi helstu menningarhátíða landsins. Helstu styrktaraðilar Ljósanætur í ár voru 85 og þeir stærstu voru Landsbankinn, Isavia, Lagardére, Nettó, Toyota Reykjanesbær, Securitas og Skólamatur og voru þeim færðar bestu þakkir.