Með 370 grömm af kókaíni innvortis
Karlmaður um fimmtugt situr nú í gæsluvarðhaldi eftir að hafa reynt að smygla um 370 grömmum af kókaíni til landsins. Maðurinn sem er erlendur var stöðvaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við komuna til landsins frá London. Við hefðbundið eftirlit tollgæslu kom upp rökstuddur grunur um að hann hefði óhreint mjöl í pokahorninu. Svo reyndist vera, því efnin hafði hann falið innvortis. Lögreglan á Suðurnesjum handtók hann og flutti á lögreglustöð. Hann var síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald. Rannsókn málsins er á lokastigi.