Með 29 ketti á heimilinu
Lögreglan á Suðurnesjum heimsótti nýverið heimili í umdæminu í kjölfar þess að kvartanir höfðu borist vegna hunda- og kattahalds þar og óþrifnaðar sem af dýrahaldinu hlytist. Þegar inn var komið reyndist þar fyrir fjöldi katta, tveir hundar og þrír páfagaukar í búri. Gaukarnir höfðu eitt herbergi út af fyrir sig.
Lögreglumaður reyndi að kasta tölu á kettina, en þegar hann var kominn upp í 22 stykki bættust fleiri kettir við og blönduðust við þá ketti sem búið var að telja.
Húsráðandi kvaðst vera með 29 ketti, fimmtán sem hann ætti sjálfur og aðra fjórtán sem væru í pössun. Innan mánaðar yrði kattahaldið komið í annað og umfangsminna horf, pössunarkettirnir farnir og heimiliskettirnir yrðu ekki fleiri en sjö talsins.
Lögregla hefur tilkynnt málið til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.