Matarkarfan í Nettó lækkaði um 5% á milli ára
Nettó er orðin ódýrari en Krónan, samkvæmt nýrri könnun ASÍ. Samkaup hafa styrkt stöðu sína sem skilar sér í vasa neytenda, segir framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa
Jólamatarkarfan í Nettó lækkaði um tæp 5% á milli ára, samkvæmt nýrri verðkönnun ASÍ sem birt var fyrir helgi eða um 2.374 krónur á milli ára.
„Nettó hefur ávallt lagt sig fram um að bjóða uppá lágt og samkeppnishæft vöruverð og góða þjónustu sem endurspeglast í þessari könnun,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.
Séu sömu vörur úr matarkörfu ASÍ bornar saman á milli áranna 2018 og 2019, tæplega 50 vörur, kostar matarkarfan hjá Nettó nú 48.454 krónur samanborið við 50.828 krónur í desember í fyrra – sem gerir 2.374 krónur ódýrari körfu í ár.
Samkvæmt könnun ASÍ er Nettó nú með næst lægstu matarkörfuna á markaðnum og rúmlega 3% lægri en sama karfa í Krónunni. Þá er ekki tekið tillit til félagsmannaafsláttar í Nettó sem gefur 2% af öllum viðskiptum gegn framvísun afsláttarkorts.
„Samkaup hefur verið að styrkja stöðu sína síðustu ár. Við erum nú með um 25% markaðshlutdeild og 60 verslanir og með hagstæðum innkaupum, skynsömum rekstri og tryggum viðskiptavinum hefur okkur tekist að lækka vöruverðið sem sést greinilega á þessari könnun. Það skilar sér svo beint í vasa neytenda,“ segir Gunnar Egill.