Mataráskrift með 55% niðurgreiðslu frá bæjarfélaginu
Reykjanesbær hefur stutt vel við bakið á nemendum í grunnskólum bæjarins og greitt niður skólamáltíðir þannig að þeir nemendur sem eru í mataráskrift hafa notið 55% niðurgreiðslu frá bænum og þeir nemendur sem eru með klippikort hafa fengið 45% niðurgreiðslu frá bænum. Frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.
Með þessum aðgerðum bæjarins hefur Reykjanesbær verið með lægsta verðið ef borin eru saman tíu stærstu sveitarfélögin.
Í bæjarráði þann 20. ágúst var tekin fyrir tillaga um hækkun á skólamáltíðum vegna verðlagshækkunar hjá birgja. Bæjarráð samþykkti að halda óbreyttu hlutfalli á niðurgreiðslu bæjarins til grunnskólanemenda, þ.e. 55% niðurgreiðsla til þeirra nemenda sem eru í mataráskrift og 45% til þeirra nemenda sem eru með klippikort.
Þrátt fyrir verðlagshækkun á hverri skólamáltíð er Reykjanesbær enn með lægsta verð á skólamáltíðum ef borin eru saman tíu stærstu sveitarfélögin.
Verð á máltíð í mataráskrift verður kr. 215 og verð á máltíð með klippikorti verður kr. 350, segir á www.rnb.is