Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mat kennara í landinu að verkfall hafi verið nauðsynlegt
Þriðjudagur 21. september 2004 kl. 12:56

Mat kennara í landinu að verkfall hafi verið nauðsynlegt

Steinunn Njálsdóttir íslenskukennari og fagstjóri í Heiðarskóla var ein þeirra sem var á fundi kennara í 88 húsinu fyrir hádegið. Steinunn segist vera afskaplega sorgmædd yfir því að verkfallsvopninu hafi þurft að beita. „Þetta er vopn sem við viljum helst ekki að sé beitt,“ sagði Steinunn í samtali við Víkurfréttir. En var að hennar mati nauðsynlegt að fara í verkfall? „Það virðist vera og það er mat flest allra kennara í landinu því það var samþykkt af hálfu 90% grunnskólakennara í landinu að fara í verkfall.“

Hvernig er hugurinn í kennurum í Heiðarskóla?
Hann er góður og við stöndum jafnt í báða fætur. Það vill hver og einn komast sæmilega af í lífinu og hluti af því er að standa vörð um sín launakjör og vinnutímaramma.

Hefurðu trú á því að verkfallið leysist fljótlega?
Það er boðað til næsta sáttafundar á fimmtudag og kennarasambandið lagði fram bráðabirgðatillögu sem þeir töldu sig sátta við fyrir næsta ár. Það átti náttúrulega eftir að bera þá tillögu undir félagsmenn en sveitarfélögin sáu sér ekki fært að mæta þeirra tillögu. Það er fólk beggja vegna borðsins og ég hef fulla trú á því fólki.

Hvað má verkfallið vera langt svo það eyðileggi ekki haustönnina í grunnskólum landsins?
Ég skal ekki segja. Það fer mikið eftir því hvaða skólastig við erum að hugsa um og ef við tökum þau öll þá má verkfall ekki vera í einn dag.

Það virðist sem lausn sé ekki í sjónmáli og að verkfallið verði langt. Hvað viltu segja við foreldra?
Ég vil bara biðja þá um að vera áfram jákvæða eins og þeir hafa verið og standa áfram vörð um sálarheill barna sinna á meðan á svona aðgerðum stendur. Það er það besta sem hægt er að gera.

Myndin: Steinunn Njálsdóttir íslenskukennari í Heiðarskóla á fundinum í 88-húsinu fyrir hádegið. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024