Markmiðið að lækka kostnað greiðenda vegna vanskilainnheimtu
Grindavíkurbær hefur undirritað samning við Inkasso innheimtufyrirtæki, sem mun framvegis sjá um alla innheimtu fyrir sveitarfélagið. „Markmið Grindavíkurbæjar með samningi þessum við Inkasso er að lækka kostnað greiðenda vegna vanskilainnheimtu samhliða því að tryggja góðan innheimtuárangur. Einnig að milliinnheimtukostnaður lækki verulega. Það er afar mikilvægt fyrir Grindavíkurbæ og þar með allt samfélagið í heild að innheimta skatta og gjalda sé sem skilvísust. Það er hagur allra,“ segir Róbert Ragnarsson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.
Markmið Inkasso eru að bjóða upp á nýjar leiðir í innheimtuþjónustu og bjóða uppá meiri sveigjanleika og lægri kostnað fyrir sveitarfélög og fyrirtæki. „Grindavíkurbær er gríðarlega öflugt sveitarfélag og hefur á seinustu árum markvisst byggt upp góða þjónustu fyrir bæjarbúa og þar er að finna öflugt atvinnulíf í sjávarútvegi, verslun og þjónustu. Það er okkur sönn ánægja að starfa með sveitarfélaginu með það að markmiði að veita íbúum þess betri þjónustu og lækka kostnað“, segir Georg Andersen framkvæmdastjóri Inkasso.