Markaðsstofa Suðurnesja hefur tekið yfir rekstur upplýsingamiðstöðvar í flugstöðinni
Markaðsstofa Suðurnesja hefur tekið yfir rekstur Upplýsingamiðstöðvar ferðamála í Flugstöð Leifs Eiríkssonar af Sandgerðisbæ með samþykki Isavia ohf. og Ferðamálastofu . Fyrir rekur Markaðsstofan Upplýsingamiðstöð Suðurnesja í Reykjanesbæ. Markaðsstofan hefur jafnframt samið við ITA um að halda úti alhliða bókunarþjónustu í tengslum við Upplýsingamiðstöðina í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Á næstu dögum verða gerðar breytingar í komusal á útliti og starfsaðstöðu við Upplýsingamiðstöðina til að geta sinnt bókunarþjónustunni betur. Með því að bjóða upp á aukna þjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vonast Markaðsstofan og Isavia ohf. til þess að erlendir ferðamenn verði ánægðari og öruggari um ferðir sínar um Ísland.
Þeir sem eru á myndinni frá vinstri: Yngvi Örn Stefánsson framkvæmdastjóri ITA, Guðný María Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Isavia ohf., Ólöf Einarsdóttir hjá UMFLE, Helga Erla Gunnarsdóttir hjá UMFLE og Kristján Pálsson framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurnesja.