Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Marína Ósk snýr aftur til heimahaganna
Marín Ósk tilbúin í gigg með tré-Hjálmum í Hljómahöll. VF-mynd/Sigurbjörn.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 31. ágúst 2023 kl. 10:43

Marína Ósk snýr aftur til heimahaganna

inlægir tónleikar í Hljómahöll. Lúxusvandamál að velja lögin.

Söngkonan Marína Ósk Þórólfsdóttir er fædd og uppalin í Keflavík en hefur undanfarin ár búið utan heimahaganna. Hún hefur verið á kafi í tónlist nánast frá fæðingu. Hún hefur gefið út tvær plötur og fleiri eru á leiðinni en hún hlaut nýverið Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir lagasmíðar sínar. Marínu hefur lengi dreymt um að koma aftur heim og halda tónleika og lætur verða að því á komandi Ljósanótt. Á tónleikunum sunnudaginn 3. september ætlar hún að gera tónlist af Suðurnesjum hátt undir höfði og mun standa ein á sviðinu, vopnuð gítar og píanói.

Marína Ósk gekk í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og er ánægð með að tónleikarnir séu í Berginu. „Þessi salur, Bergið, er mér mjög kær en ég nánast flutti í Hljómahöllina þegar ég var að kenna við tónlistarskólann árið 2017. Ég dvaldi mjög mikið í húsinu á milli þess sem ég var að kenna og æfði mig og samdi tónlist. Mér líður vel í Hljómahöllinni enda góður andi í húsinu. Ég ólst upp í tónlistarskólanum þegar hann var á Austurgötunni og þykir sömuleiðis mjög vænt um þann tíma. Þar lærði ég mikið og fékk góðan stuðning og hvatningu en ég tel þennan tónlistarskóla vera með þeim bestu á landinu. Þess vegna þykir mér kærkomið að koma aftur heim og fá að halda tónleika í Hljómahöll. Ég hef í raun ekki gert það síðan ég hélt útskriftartónleikana mína frá tónlistarskólanum.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lifir fyrir fjölbreytni

Það hefur verið nóg að gera hjá Marínu Ósk að undanförnu og hún hlakkar mikið til tónleikanna í Bergi. „Það hefur verið mjög mikið að gera í tónlistinni síðustu mánuði, bæði í að flytja jazz á hinum og þessum stöðum og svo hef ég verið mikið í húsi Máls & Menningar á Laugaveginum með húsbandinu, The Honkytonks. Þar erum við að spila gömul og góð rokk- og popplög sem allir þekkja og geta sungið með og í sumar hafa ferðamenn fyllt húsið kvöld eftir kvöld. Stundum hefur það komið fyrir að ég hef tekið jazzgigg eða brúðkaup um daginn og verið mætt á sviðið á Máli & Menningu um kvöldið, sem er dýrðlegt. Ég lifi fyrir þessa fjölbreytni, að fá að spila allskonar tónlist með góðu fólki. Út af þessari miklu spilamennsku hefur ekki gefist mikill tími til lagasmíða undanfarið en það kemur vonandi með kalda vindinum og haustinu. Ég er með tvær ólíkar plötur í kollinum sem þurfa að fara að komast út.“

Hlýleg og skemmtileg stemning

Marína er búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í talsverðan tíma. „Þessir tónleikar hafa blundað í mér í nokkurn tíma. Þegar ég sá að Menningarsjóður Reykjanesbæjar var að auglýsa eftir umsóknum í vor ákvað ég að klára hugmyndina og sækja um. Þau samþykktu verkefnið og þá fór allt í gang. Ég fékk til liðs við mig Martin L. Sörensen hjá MX verkefnum sem heldur utan um viðburðinn. Mig langaði líka til að tengja tónleikana við Ljósanótt og var mjög glöð að þau tóku vel í hugmyndina. Ég ætla að flytja tónlist sem á rætur sínar að rekja hingað heim á Reykjanesið og er annaðhvort samin eða flutt af heimafólki. Mér eiginlega brá þegar ég byrjaði að safna saman lögum fyrir efnisskrána. Tónlistararfurinn sem frá þessu svæði kemur er risastór og það var því algert lúxus vandamál að velja lögin. Ég gæti líklega haldið tíu svona tónleika með mismunandi efni og aldrei að vita hvað gerist! Ég ætla að hafa þetta dálítið innilegt. Ég mun segja frá lögunum, höfundunum og flytjendunum og flytja tónlistina svo í eigin útsetningum. Svo er aldrei að vita nema lag eftir sjálfa mig fái að fljóta með. Ég held að það geti myndast hlýleg og skemmtileg stemning á þessum tónleikum og ég hlakka mikið til,“ sagði Marína Ósk að lokum.