Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Marína & Mikael gefa út sína fyrstu plötu
Fimmtudagur 17. ágúst 2017 kl. 06:00

Marína & Mikael gefa út sína fyrstu plötu

Söngkonan og Keflvíkingurinn Marína Ósk Þórólfsdóttir hefur síðustu ár lært jazz í söngskóla í Amsterdam en hljómsveitin hennar, Marína & Mikael, gaf á dögunum út hennar fyrstu plötu sem ber heitið „Beint heim“.

Marína & Mikael hafa komið víða við en dúettinn varð til árið 2014 í skólanum í Amsterdam. „Það eru ekki margir Íslendingar sem stunda nám við skólann svo það var einstaklega skemmtilegt að rekast á íslenskan gítarleikara,“ segir Marína, en í dag hafa þau Mikael spilað á um hundrað viðburðum saman. „Það er rosalega gott að spila með Mikael og einstaklega gefandi.“ Mikael á heiðurinn af útsetningunum á plötunni en Marína semur textana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Viðbrögðin við plötunni hafa verið góð en Marína segir þau hafa komið skemmtilega á óvart. „Við lögðum hjarta og sál í þetta verkefni og okkur þykir rosalega vænt um „afkvæmið“ okkar. Við erum alveg hrærð yfir því hversu vel okkur hefur verið tekið.“ Efniviður plötunnar er gamaldags sveiflu- og söngleikjalög.

Í haust mun Marína starfa sem söngkennari í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. „Það var ótrúleg tilviljun að kennslustaða í mínum heimabæ hafi losnað. Ég ólst sjálf upp í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Ég kláraði burtfararpróf þaðan og kenndi í nokkur ár svo þetta er svolítið eins og að koma heim. Þar að auki er aðstaðan í Hljómahöll alveg til fyrirmyndar og metnaðurinn mikill sem gerir þetta enn meira spennandi.“

Plata Marínu & Mikaels er hlý og sumarleg en dúettinn heldur tvenna útgáfutónleika, bæði á Græna Hattinum á Akureyri sem fram fóru í gærkvöldi og á Græna Herberginu í Reykjavík þann 23. ágúst næstkomandi. Plötuna sjálfa er hægt að nálgast í ýmsum verslunum, til dæmis í Smekkleysu á Laugarvegi og hjá þeim persónulega í gegnum Facebook. Hér fyrir neðan má heyra nýtt lag þeirra og tónlistarmyndband, „Setjumst hér stutta stund“.