María Lóa, Dagný og Björk til Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja
Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja hefur ráðið til starfa þrjá starfsmenn. Auglýst var eftir starfsmönnum 14. júlí s.l. Auglýsingin birtist í Fréttablaðinu, Víkurfréttum og Tíðindunum. Capacent annaðist umsjón með auglýsingu og úrvinnslu umsókna. Alls bárust 60 umsóknir. Nýju starfsmennirnir eru María Lóa Friðjónsdóttir, Dagný Gísladóttir og Björk Guðjónsdóttir.
María Lóa er með meistarapróf (M.sc.) í stjórnun í alþjólegu fyrirtækjaumhverfi. María Lóa hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hún hefur meðal annars starfað hjá Intrum, Sparisjóði Skagafjarðar og Byggðastofnun.
Dagný er með BA próf í íslensku. Hún hefur mikla reynslu sem skjalastjóri, vefstjóri, myndvinnslu- og verkefnastjóri. Meðal hennar fyrri vinnustaða er Gagnavarslan, Reykjanesbær og Víkurfréttir.
Björk er gagnfræðingur. Starfsreynsla hennar felst m.a. í verkefnastjórnun en Björk hefur séð um Vaxtarsamning og Menningarsamning Suðurnesja. Björk var alþingismaður frá 2007-2009 og bæjarfulltrúi frá 1990-2010.
Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum mun veita Atvinnuþróunarfélaginu forstöðu.
Stjórnir Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar hafa ákveðið kynna sér á markvissan hátt aðferðir og áherslu ESB í svæðisþróun og atvinnumálum.
Til þess hafa ofangreindir aðilar hafa ákveðið að nýta sér óskilyrt boð stækkunardeildar Evrópusambandsins um greiningu á samkeppnishæfni svæðisins og í framhaldi af því meta allar helstu hugmyndir um atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum út frá niðurstöðum þeirrar greiningar. Valin verða úr nokkur verkefni til frekari undirbúnings sem auðvelda aðgengi að fjármagni hjá evrópskum fjármálastofnunum.
Greiningarvinnan hefst í október og lýkur um miðjan mars en það verða evrópskir ráðgjafar, með langa reynslu á þessu sviði, sem munu annast verkefnið í náinni samvinnu við stjórn og starfsfólk Heklunnar.
Þá telur Heklan áhugavert að skoða samanburð við Tampere hérað í Finnlandi en héraðið hefur náð einstökum árangri við að bæta atvinnuástand á sínu svæði og verður því dýrmætt fyrir stjórn og starfsfólk Heklunnar að geta leitað í þeirra smiðju. Unnið er að því að koma á samningi um ýmiskonar þjálfun og ráðgjöf sem fer fram bæði hér á landi og í Finnlandi, sem einnig er mögulegt að verði hluti af framlagi ESB.