Margt um að vera á 17. júní í Reykjanesbæ og veðurspáin góð
Það er útlit fyrir ágætis veður á 17. júní og er margt um að vera í Reykjanesbæ á Þjóðhátíðardaginn. Klukkan 10 spila drengir úr 7. flokk UMFN á móti drengjum úr 7. flokki Keflavíkur á Njarðvíkurvelli.
Klukkan 13 hefst hátíðarmessa í Keflavíkurkirkju og klukkan 13:30 leggur skrúðganga af stað frá kirkjunni undir stjórn skáta.
Í skrúðgarðinum klukkan 14 mun Hafsteinn Guðmundsson draga þjóðfánann að húni og í kjölfarið mun Karlakór Keflavíkur syngja þjóðsönginn. Gunnar Oddsson formaður MÍT mun setja hátíðarhöldin. Ávarp fjallkonunnar er í höndum Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur fyrrverandi Fegurðardrottningu Suðurnesja. Ræðu dagsins flytur Jóhann B. Magnússon formaður ÍRB. Fjölbreytt skemmtidagskrá verður í umsjón íþróttafélaganna Keflavíkur og UMFN en þar munu m.a. Tóti tannálfur og Jósafat mannahrellir mæt, auk Maju jarðarbers og Immu ananas. Eiríkur Fjalar mætir á svæðið og Bubbi Morthens tekur lagið. Fjölbreytt leiktæki frá sprell verða í skrúðgarðinum.
Í stapanum verður barna- og fjölskylduball frá 18-20 að ógleymdri míní idol keppni.
Kvöldskemmtun í Reykjaneshöll hefst klukkan 20:30 og er dagskráin sem hér segir:
Yngri Léttsveit Tr, Hljómsveitin Kókoz, Töframennirnir Pétur Pókus og Bjarni, Auddi og Sveppi og hljómsveitin Írafár mun loka kvöldinu.
Kaffisala verður víða um bæinn og söfn verða opin. Dagskrá 17. júní í Reykjanesbæ hefur verið borin í hús á Suðurnesjum.
Myndin: Frá 17. júní hátíðarhöldunum í fyrra. VF-ljósmynd/Páll Ketilsson.