Margrét GK 9 kom með flutningaskipi frá Tyrklandi
Nýr stálbátur sem smíðaður var fyrir Skipasmíðastöð Njarðvíkur í Tyrklandi, og verður afhentur Stakkavík í Grindavík, kom með flutningaskipi á mánudag til Helguvíkurhafnar. Nýja skipið verður klárað í skipasmíðastöðinni á næstu vikum og afhent nýjum eiganda þegar búið verður að ganga frá ýmsum búnaði í því.
Nýja skipið sem minnir á veglegt straujárn hefur fengið nafnið Margrét GK 9. Að sögn Þráins Jónssonar hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur sem hannaði skipið, segir að það hafi fengið „far“ með flutningaskipi sem er á leið frá Tyrklandi til Bandaríkjanna. Þegar „straujárnið“ verður komið í húsnæði skipasmíðastöðvarinnar tekur við frágangs vinna sem áætlað er að taki sex vikur, m.a. verður ýmis búnaður settur á dekk eins og krabbavélar, kæling og fiskvinnslubúnaður. Margrét GK verður hvít að lit, eins og flest straujárn.