Margrét gefur kost á sér í 1. sæti Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ
- Sjálfstæðismenn með uppstillingu á framboðslista
	Margrét Sanders hefur gefið kost á sér í 1. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ í gærkvöldi var ákveðið að viðhafa uppstillingu og tilkynnti Margrét Sanders þá að hún gæfi kost á sér í 1. sæti á lista.
	Uppstillingarnefnd verður kosin á fulltrúaráðsfundi þann 1. febrúar nk. og mun hún í framhaldinu óska eftir framboðum á listann.
	Þegar hafa komið fram nokkrir einstaklingar og lýst áhuga á að taka sæti ofarlega á lista Sjálfstæðisflokksins en Margrét Sanders er sú fyrsta til að lýsa yfir áhuga á að taka forystusætið. Margrét er ráðgjafi og meðeigandi ráðgjafafyrirtækisins Strategíu. Hún er auk þess formaður Samtaka verslunar og þjónustu síðan 2014, og hefur setið í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins frá sama tíma.
	Margrét starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Deloitte á Íslandi í 17 ár eftir að hún kom heim frá háskólanámi í viðskiptafræði og MBA í Bandaríkunum. Margrét lauk íþróttakennaraprófi og kennaraháskólaprófi frá Kennaraháskóla Íslands og Íþróttakennaraskóla Íslands og starfaði sem kennari og íþróttakennari í 15 ár. Auk þessa stundaði Margrét nám í frönsku við Háskóla í Frakklandi.
	Margrét hefur í gegnum árin starfað mikið að félagsmálum og verið m.a. í stjórnum íþróttafélaga í Njarðvík og Keflavík ásamt því að keppa í nokkrum íþróttagreinum og sem þjálfari í Njarðvík. Hún hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja en einnig í nefndum á vegum ríkis og sveitarfélaga meðal annars í nefnd um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnana, nefnd vegna flutnings grunnskóla til sveitarfélaganna og stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. 
	Margrét er gift Sigurði Guðnasyni og eiga þau 2 börn, þau Sigríði og Albert Karl sem lést 2011. Fósturdóttir Margrétar og dóttir Sigurðar er Sylvía Rós.
	
	

	 Á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ í gærkvöldi var ákveðið að viðhafa uppstillingu.
				
	
				

 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				