Margir vilja vera meðhjálparar
Mjög góð þáttaka var á námskeiði fyrir meðhjálpara sem Keflavíkurkirkja stóð fyrir í síðustu viku. Alls sóttu 20 manns námskeiðið en þar er boðið upp á margvíslega fræðslu um messuna og þá þætti sem henni tengjast.
Sr. Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur, segist ánægður með áhugann sem þessi þátttaka gefi til kynna. „Við heimsóttum m.a. Hallgrímskirkju sem hefur verið með þetta prógramm í fjögur ár. Þar hefur fjölgað stöðugt í þessum hópi þjóna sem koma víða af höfuðborgarsvæðinu þannig að fólk virðist fá mikið út úr þessu starfi,“ sagði séra Skúli.
Hann segir þessi námskeið hluta af þeirri viðleitni að bæta kirkjustarfið. Þetta er í fyrsta skipti sem Keflavíkurkirkja heldur námskeið af þessu tagi og segir Skúli viðbrögðin gefa til kynna að grundvöllur verði fyrir öðru meðhjálparanámskeiði næsta haust.
„Þetta er áhugasamt fólk sem á eftir að vera með okkur í helgihaldinu í framtíðinni. Það kemur að starfinu með ýmsum hætti og á vonandi eftir að verða með okkur í undirbúningi messuhaldsins,“ sagði séra Skúli. Aðkoma fleiri muni fæða af sér fleiri hugmyndir um kirkjustarfið.
---
VFmynd/pket - Frá athöfn í tilefni af 95 ára afmæli Keflavíkurkirkju fyrir nokkru.