Margir vaxtarsprotar í Garðinum
Ferða-, safna- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Garðs hefur víðtækt svið til umfjöllunar. Byggðasafnið á Garðskaga er ein mikilvægasta stofnun bæjarins í ferðamálum. Bókasafn Garðs hefur vaxið og dafnað eftir að það komst í nýtt húsnæði.
Í sögu- og menningartengdri ferðaþjónustu og náttúrutengdri ferðaþjónustu liggja margir vaxtasprotar í Garðinum, segir nefndin í fundargerð sinni frá því fyrr í mánuðinum. Árlegar hátíðir, s.s. Sólseturshátíð og Ferskir vindar, hvers konar tónlistar- og menningarhátíðir eru mikilvægar fyrir íbúa og gesti.
Vert er að minnast hlutverks vitanna tveggja með vetrarhátíð í vitunum. Aðstaða fyrir ferðamenn á tjaldstæðinu á Garðskaga er ófullnægjandi og brýnt er að leggja gönguleið frá Útskálum að Garðskaga. Forgangsraða verður verkefnum í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar og ljúka verkefnum.