Margir gista í tjaldi í Grindavík fyrir og eftir flug
Margt hefur verið um manninn á tjaldsvæðinu í Grindavík undanfarið. Að sögn Margrétar Albertsdóttir, starfsmanns á tjaldsvæðinu, eru margir gestanna ferðamenn sem gista þar fyrstu og síðustu nóttina sína á Íslandi. Flestir erlendu ferðamannanna eru frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Frakklandi. Þá hefur fjöldi Kanadamanna meðal þeirra aukist eftir að beint flug hófst þaðan. „Um daginn kom svo fólk frá Indlandi og svo er eitthvað um ferðamenn frá Ástralíu,“ segir Margrét. Algengast er svo að íslenskir ferðamenn kíki við um helgar.
Á tjaldsvæðinu er eldhús með áhöldum þar sem ferðamenn geta eldað sér mat inni við. Þá eru þar salerni og sturtur, grill, aðgangur að rafmagni og leiksvæði fyrir börn.