MARGIR GEFA RÍKINU GÓÐÆRIÐ
Síðasta vika var að mestu slysalaus í umdæmi lögreglunnar í Keflavík og eru lögreglumenn því almennt mjög þakklátir. Margir hétu þó sínum hluta góðærisins beint á ríkissjóð aftur því 44 voru kærðir fyrir of hraðan akstur og fjórir eru grunaðir um ölvunarakstur. Þá voru 30 kærðir fyrir að vanrækja að láta skoða bifreiðar sínar, tveir ökumenn misskildu stöðvunarskildumerkin og 7 töldu ekki ástæðu til að festa sig í öryggisbeltin. Sé gert ráð fyrir vægustu sektun vegna hrað- og ölvunaraksturs getur ríkissjóður þakkað ökumönnum á Suðurnesjum a.m.k kr. 507.000 framlag þessa vikuna. Grindvíkingar lögðu einnig sitt af mörkum og nam framlag þeirra a.m.k. kr. 181.000 í ýmsustu umferðarlagabrotum þ.m.t einum kærðum ölvunarakstri. Þá tókst tveimur bifreiðum að lenda í hörðum árekstri á gatnamótum Ránargötu og Mánagötu þrátt fyrir að hafa báðar verið á leið í sömu átt. Varð þar mikið eignatjón en enginn slasaðist sem skiptir auðvitað mestu. Þá sá einhver sig knúinn til að skemma bifreið á Miðgarði og laumast burt.