Margir að komast á þann aldur að þeir þurfi meiri aðstoð við athafnir daglegs lífs
segir Sigurður Garðarsson. Starfið á Nesvöllum gengur vel. Bygging 60 rúma hjúkrunarheimilis við Nesvelli mun auka lífsgæði og þjónustu við íbúa.
„Starfsemin hefur vaxið mjög mikið undanfarin ár og það leggst vel í mig að taka við því ásamt Maríu Fjólu Harðardóttur sem er snillingur í öldrunarþjónustu,“ segir Sigurður Garðarsson en hann hefur tekið við starfi forstjóra Hrafnistu ásamt Maríu Fjólu. Sigurður hefur undanfarin ár starfað í framlínu félagsins sem framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins.
Starfsemi Hrafnistu er gríðarlega umfangsmikil en hún rekur um 850 hjúkrunarrými og um 200 dagdvalarrými. Þar að auki búa um 350 í leiguíbúðum Naustavarar. „Það má þá segja að það séu vel á annað þúsund aldraðir sem leggja traust sitt á okkur til að sinna þeirra þörfum. Við þessa þjónustu starfa síðan ríflega 1500 starfsmenn sem sinna þeirri þjónustu,“ segir Sigurður.
Sigurður segir ýmsar áskoranir í rekstri Hrafnistu þegar til framtíðar sé litið. „Það blasir við okkur að það er mjög stór hópur af fólki sem er að komast á þann aldur að það þurfi meiri aðstoð við athafnir daglegs lífs. Þessum þörfum þarf að mæta og við munum taka þátt í að sinna því í framtíðinni.“
– Hvernig hefur starfið gengið á tímum COVID-19?
„Fram til þessa hefur starfsmönnum Hafnistu tekist framúrskarandi vel að ráða við COVID-19. Það er fórnfýsi og einbeitingu þeirra sem vinna á hjúkrunarheimilinum að þakka að engin smit hafa komið upp hjá heimilisfólki fram til þessa.“
Nú hefur Hrafnista verið með rekstur hjúkrunarheimila á Suðurnesjum undanfarin ár. Hvernig hefur það gengið og hvaða þýðingu mun það hafa þegar 30 ný herbergi verða tekin í notkun og 30 herbergi frá Hlévangi flytja í nýja heimilið?
„Það gengur mjög vel hjá Þuríði Elíasdóttur og starfsfólki hennar á Hrafnistu að veita þjónustu á Nesvöllum. Sú aðstaða sem þar er búið að koma upp hefur skipt sköpum með meiri lífsgæði fyrir íbúana og það mun batna enn meira þegar að nýju hjúkrunarheimili með 60 rýmum hefur verið bætt við,“ segir Sigurður.
Sigurður Garðarsson er Keflvíkingur og starfaði lengi hjá Keflavíkurverktökum á Keflavíkurflugvelli, þá starfaði hann einnig sem ráðgjafi, m.a. hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, og nú síðast sem framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins.
Hann hefur verið ötull félagsmálamaður á Suðurnesjum, var um tíma formaður Golfklúbbs Suðurnesja og er nú formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur.