Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Margar rangar ákvarðanir
Miðvikudagur 3. nóvember 2010 kl. 13:57

Margar rangar ákvarðanir


Bæjarfulltrúar Samfylkingar í Reykjanesbæ segja skuldir bæjarins „ískyggilega háar” og nemi nú 360% af tekjum bæjarins. Þeir segja fjárhagsáætlun, sem lögð var fyrir í janúar á þessu ári, hafa verið byggða á sandi. Margar rangar ákvarðanir hafi verið teknar í rekstri bæjarins á síðustu árum. Greinilegt sé að bæta verði áætlunargerð og undirbúning fjárhagsáætlunar verulega en þar hafi  skort á raunhæf vinnubrögð.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í bókun Samfylkingarinnar sem lögð var fram á bæjarstjórnarfundi í gær. Þar var endurskoðuð fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2010 til umræðu. Hún var samþykkt með atvæðum meirihlutans en minnihlutinn greiddi ekki atkvæði og sat hjá.

Bókunin er svohljóðandi:

„Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2010 sem nú liggur fyrir sýnir svo ekki verður um villst að sú áætlun sem lögð var fyrir bæjarstjórn í janúar 2010 var byggð á sandi.

Bæjarfulltrúar A-listans bókuðu m.a. eftirfarandi á bæjarstjórnarfundi 5. janúar 2010. ,,Við skulum vona að niðurstaða þessarar áætlunar gangi eftir en verum þess jafnframt viðbúin að það muni skeika um hundruði milljóna eða jafnvel milljarða miðað við reynslu af áætlanagerð sjálfstæðismanna á sl. árum."

Því miður reyndust bæjarfulltrúar A-listans sannspáir. Eigið fé bæjarsjóðs um næstu áramót er áætlað 18% en ekki 39,9% eins og áætlun sjálfstæðismanna sagði til um. Skuldir bæjarsjóðs miðað við tekjur bæjarsjóðs eru ískyggilega háar og nema nú 360% af tekjum bæjarins.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ leggja áherslu á að pólitískan ágreining þarf að leggja til hliðar í þeirri vinnu sem framundan er til að bjarga því sem bjargað verður í rekstri og fjármálum Reykjanesbæjar. Mikill niðurskurður blasir við og öllum er nú ljóst að teknar hafa veið margar rangar ákvarðanir í síðustu árum en afleiðingarnar skella nú með fullum þunga á íbúum Reykjanesbæjar.

Allar ákvarðanir um leiðir til að brúa gatið, meiri niðurskurður eða auknar tekjur koma til með að vera umdeildar og grundvöllur skoðanaskipta. Slíkur ágreiningur má þó ekki koma í veg fyrir samstarf um lausnir og lagfæringar á þeim brotalömum sem nú eru til staðar. Nú verður að skoða allar leiðir til úrbóta og við munum á næstu vikum leggja okkar lóð á vogaskálarnar við gerð fjárhagsáætlunar 2011 með það að markmiði að bæta rekstur bæjarsjóðs. Greinilegt er að bæta verður áætlunargerð og undirbúning fjárhagsáætlunar verulega en þar hefur verulega skort á raunhæf vinnubrögð.
Ítrekaður taprekstur á Reykjanesbæ síðustu árin sýnir það og sannar.

Við leggjum enn og aftur áherslu á að áætlanagerð í fjármálum Reykjanesbæjar þarf að fylgja gagnger endurskoðun á B-hluta fyrirtækum Reykjanesbæjar, Kölku, Reykjaneshöfn, Íslending og Útlending og Fasteign í því skyni að létta á skuldabyrði Reykjanesbæjar.“



Tengdar fréttir:

Ná að lækka taprekstur í 200 milljónir kr.

Gert ráð fyrir 200 milljóna neikvæðri rekstrarniðurstöðu

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024