Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Margar góðar gjafir í Velferðarsjóð
Þriðjudagur 7. desember 2010 kl. 09:05

Margar góðar gjafir í Velferðarsjóð

Margar góðar gjafir hafa borist Velferðarsjóði Suðurnesja á undanförnum dögum. Má þar nefna gjöf frá Félagi eldri borgara á Suðurnesjum sem styrkti sjóðinn um 300.000 kr til minningar um Guðrúnu E Ólafsdóttur formann félagsins en hún lést á þessu ári. Eyjólfur Eysteinsson afhenti þessa rausnarlegu gjöf í Keflavíkurkirkju s.l. sunnudagskvöld.

Einnig barst sjóðnum gjöf frá starfsfólki og foreldrum barna í leikskólanum Tjarnarseli að upphæð kr. 170.000. Þetta var afrakstur kleinubaksturs sem allt starfsfólk leikskólans kom að og seldi foreldrum barnanna og öðrum velunnurum leikskólans. Hjördís Kristinsdóttir starfsmaður Keflavíkurkirkju veitti gjöfinni viðtöku við fallega söngstund á leikskólanum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Systrafélag Innri Njarðvíkurkirkju færði sjóðnum kr. 100.000. Birna Ómarsdóttir gjaldkeri og sonur hennar Róbert William afhentu gjöfina.

Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis færði sjóðnum gjafakort að upphæð kr. 600 þús. Það var Kristján Gunnarsson formaður félagsins sem afhenti gjöfina en sr. Skúli S. Ólafsson sóknarprestur í Keflavíkurkirkju veitti gjöfinni viðtöku.

Einstaklingar og hópar hafa komið færandi hendi það sem af er aðventu. Afhentur hefur verið afrakstur kleinusölu, heimabakaðar smákökur og bleijur sem dagforeldrar í Reykjanesbæ hafa safnað saman m.a. hjá foreldrum barna sem dvelja hjá þeim. Einnig hefur hárgreiðslufólk gefið vinnu sína og margir notið góðs af.

Velferðarsjóður þakkar allar gjafir sem honum berast, stórar sem smáar.

Reikningsnr sjóðsins er 1109-05-1151 kt. 680169-5789