Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Maraþonfundur í bæjarstjórn Grindavíkur
Föstudagur 27. september 2013 kl. 10:15

Maraþonfundur í bæjarstjórn Grindavíkur

Tekist var á um íþróttamannvirki í Grindavík á sannkölluðum maraþonfundi í bæjarstjórn Grindavíkur í vikunni. Á fundinum var samþykkt að ganga til samninga við Grindina um byggingu 2. áfanga nýbyggingar á íþróttasvæðinu í Grindavík.

Fulltrúi D-lista lagði fram breytingatillögu þess efnis að hætt verði við að taka tilboði í þessa byggingu og gerð verði rafræn könnun meðal íbúa Grindavíkur hvort ráðast eigi í þessa framkvæmd.

Tillaga D-listans var felld með 6 atkvæðum og þess í stað samþykkti bæjarstjórn að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við lægstbjóðanda og leggja samning fyrir bæjarráð til afgreiðslu. Það var samþykkt með 6 atkvæðum en fulltrúi D-lista var á móti.

„B-, G- og S-listi fagna þessu fyrsta skrefi í uppbyggingu á íþróttamannvirkjum í Grindavík. Þessi uppbygging mun stórbæta félagsaðstöðu UMFG, Kvenfélags Grindavíkur og almennings ásamt því að sameina þrjár starfsstöðvar í eina með tilheyrandi hagræðingu í starfsemi íþróttamiðstöðvarinnar,“ segir í bókun fulltrúa B-, G- og S-lista.

„Forráðamenn allra deilda innan UMFG hafa sent bæjarstjórn undirritað bréf til að mótmæla þessum framkvæmdum. Enn hefur ekki verið hlustað á athugasemdir íþróttahreyfingarinnar, heldur snúið út úr þeim. Ekki hefur verið haldinn opinn kynningarfundur um lokaniðurstöðu verkefnisins um áætlaðan rekstrarkostnað, áætlaðan framkvæmdakostnað og um fyrirhuguð not.
Meirihluti bæjarstjórnar þorir ekki að framkvæma skoðanakönnun meðal bæjarbúa til að kanna vilja þeirra á þessari framkvæmd, frekar en þegar Festi var gefið.
Ráðast á í þessa byggingu, dýrustu framkvæmd sem bærinn hefur farið í, nú 8 mánuðum fyrir kosningar.
Kosnaður við þessa byggingu er í anda ársins 2007. Kosnaður á fermetra verður að lágmarki kr 348.000 á fermetra meðan byggingin við grunnskólann kostar kr.215.000 á fermetra, þetta þýðir 60% hærri kostnaður. Einnig mun rekstrarkostnaður Grindavíkurbæjar aukast um ríflega 40 milljónir króna á ári.
Undirritaður telur rétt að bíða með jafn stóra framkvæmd og þessa fram yfir kosningar,“ segir í bókun frá fulltrúa D-lista.

Eftir 10 mínútna fundarhlé kom svo önnur bókun:
„Fulltrúar B-, G- og S-lista vilja benda á að umrætt bréf sem fulltrúi D-lista fjallar um var undirritað af einstaklingum úr deildum UMFG en ekki öllum forráðamönnum. Í framhaldinu hélt bæjarráð fund með öllum deildum þar sem forráðamenn gátu komið að athugasemdum við fyrirliggjandi tillögu og var reynt að koma til móts við þær eftir bestu getu.
Aldrei kom fram tillaga frá byggingarnefnd eða bæjarfulltrúum um að halda opin kynningarfund um lokaniðurstöðu verkefnisins og kom það því ekki til umræðu bæjarstjórnar enda ekki hefð fyrir því að halda slíka fundi um framkvæmdir á vegum bæjarins.
Varðandi skoðanakönnun þá er gott að rifja upp að fulltrúi D-lista í bæjarstjórn var á móti íbúakosningu um Festi þegar hann studdi sölu á fasteigninni en skipti síðan um skoðun þegar í ljós kom að hann var í minnihluta. Allar tillögur D-lista til aukins íbúalýðræðis koma aðeins fram við lokaniðustöðu verkefna er hann er á móti.
Varðandi byggingarkostnað þá var ljóst frá upphafi að uppbygging við íþróttamannvirkin yrði dýrari en bygging bókasafns og tónlistarskóla enda um töluvert flóknara mannvirki að ræða. Varðandi aukinn rekstrarkostnað þá hefur verið tekið tillit til þess í fjögurra ára fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar og er Grindavíkurbær fær til að taka hann á sig enda mun þetta þýða bætt aðstaða og þjónusta við almenning, íþróttahreyfinguna og Kvenfélag Grindavíkur“.
Undir þetta skrifa fulltrúar B-, G- og S-lista.

Samtals voru 34 mál á dagskrá þessa maraþonbæjarstjórnarfundar sem hófst kl. 17:00 og lauk ekki fyrr en kl. 21:35. Athygli vekur að við fjölda mála á fundinum er tekið fram að allir bæjarfulltrúar hafi tekið til máls.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024