Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Már hafði betur fyrir Max
Már og Max haustið 2021 í Keflavík. VF/pket
Mánudagur 19. júní 2023 kl. 22:49

Már hafði betur fyrir Max

– og vill sjá opinbera afsökunarbeiðni

Már Gunnarsson segist djúpt snortinn yfir þeim stuðningi sem íslenska þjóðin hefur sýnt honum og leiðsöguhundinum Max í þeirri baráttu sem þeir félagar stóðu í.

Már greindi frá því um helgina að hann væri krafinn um 600.000 krónur í ýmis gjöld fyrir það eitt að vilja ferðast með leiðsöguhundinn Max á milli Bretlands og Íslands. Már stundar tónlistarnám á Bretlandseyjum og þar nýtur hann aðstoðar Max, sem er leiðsöguhundur fyrir blinda.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Már hafði komið víða að lokuðum dyrum eða að regluverkið væri þannig að kostnaðurinn við ferðalagið með hundinn væri nær óyfirstíganlegur.
„Ég vil sérstaklega þakka Ingu Sæland fyrir hennar aðkomu, standa vörð um réttindi okkar, gefa ekkert eftir og vera „Simply the Best“, segir Már í færslu á fésbókinni nú síðdegis.

Inga benti á lög um leiðsöguhunda sem sett voru árið 2018 og þar kemur fram að notendur skulu ekki bera kostnað sem hlýst af öflun og þjálfun slíkra hunda eða vegna flutnings slíkra hunda til og frá landi hverju sinni.

Matvælaráðuneytið tilkynnti svo síðdegis að Már þurfi ekki að greiða kostnaðinn sem því fylgir að taka leiðsöguhundinn með í frí til landsins.

„Nú verður spennandi að sjá hvernig framhaldið verður, hvort ég fái persónulega skriflega staðfestingu með þessum loforðum og ef þau eru „nice—“ smá opinbera afsökunarbeiðni fyrir fyrri vinnubrögð ráðuneytisins og MAST.

Takk öll og góða nótt,“ skrifar Már Gunnarsson og lætur rautt hjarta ❤️ fylgja færslunni.