Már er Suðurnesjamaður ársins 2019
Sundkappinn og tónlistarmaðurinn Már Gunnarsson er Suðurnesjamaður ársins 2019 hjá Víkurfréttum. „Ég átti nú ekki alveg von á þessu en gaman að vera kominn í þennan merka hóp ykkar,“ sagði ungi maðurinn af hógværð.
Þegar þetta birtist 2. janúar er Már kominn til útlanda en hann mun næstu vikurnar stunda æfingar og keppa erlendis. Már er aðeins tvítugur að aldri.
Már á sérlega glæsilegt íþróttaár að baki sem náði hámarki á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fór í London seint á síðasta ári. Þar varð Már einn Norðurlandabúa til þess að komast á verðlaunapall þegar hann setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í 100m baksundi og vann til bronsverðlauna í greininni. Á árinu 2019 setti Már alls 28 Íslandsmet og synti þrívegis undir gildandi heimsmeti á ÍM25 í Ásvallalaug. Már stefnir ótrauður að þátttöku á Paralympics í Tokyo 2020 en takist það ætlunarverk hans verður það í fyrsta sinn sem hann keppir á leikunum.
Már var útnefndur íþróttamaður fatlaðra á Íslandi og hann endaði í 11. sæti í vali á Íþróttamanni ársins á Íslandi. Þá toppaði hann árið á Gamlársdag þegar hann var kjörinn íþróttakarl Reykjanesbæjar 2019.
Már sinnti tónlistargyðjunni einnig af kappi og hélt stórtónleika í upphafi árs, hann ætlar að endurtaka leikinn nú í mars. Þá endaði Már árið skemmtilega þegar hann og Ísold systir hans unnu jólalagakeppni Rásar tvö. Lagið var efst á vinsældalista Rásar tvö síðustu vikuna í desember og næstvinsælast vikuna þar á undan.
Í Víkurfréttum sem koma út í dag 2. janúar er skemmtilegt viðtal við Má Gunnarsson sem Marta Eiríksdóttir tók en svo er Már í sjónvarpsviðtali hjá Páli Ketilssyni í Suðurnesjamagasíni sem frumsýnt er fimmtudagskvöldið 2. janúar kl. 20.30 á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og einnig hjá Kapalvæðingu í Reykjanesbæ. Þá er þátturinn aðgengilegur á vf.is frá kl. 20.30.