Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mansalsmál með tengsl til Suðurnesja
Föstudagur 23. október 2009 kl. 13:06

Mansalsmál með tengsl til Suðurnesja

Mansalsmálið sem lögreglan á Suðurnesjum hefur til rannsóknar hefur tengsl til Suðurnesja. Lögreglustjóri Suðurnesja getur þó ekki tjáð sig frekar um tengslin. Fimm Litháar og þrír Íslendingar eru í varðhaldi lögreglu vegna rannsóknar málsins sem hófst með því að lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af 19 ára stúlku sem var að koma til landsins með flugi fyrr í mánuðinum. Grunur leikur á að hún sé fórnarlamb mansals.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur staðið í ströngu síðustu daga í tengslum við meint mansalsmál sem kom upp í síðustu viku. „Þetta er umfangsmikil rannsókn. Menn hafa staðið sig frábærlega eins og þeirra er von og vísa. Það er mikið undir en við erum alls ekki komin að landi. Mansalsmál eru mjög erfið í sönnun almennt og það varðar ekki bara þetta mál,“ sagði Sigríður í samtali við Víkurfréttir.


„Þetta eru erfið mál viðureignar því að í fæstum tilvikum er fórnarlambið samstarfsfúst, því það er ákveðin ógn sem að því steðjar og ýmsar aðrar ástæður sem þar eru að baki“.


- Hvernig er þinn mannskapur að taka á málinu og hvað ertu með fjölmennt lið við rannsóknina?


„Rannsóknardeildin eins og hún leggur sig er í þessu máli. Við gerðum verulegar breytingar á skipan rannsóknar mála hér í febrúar og mars, sem er að hjálpa okkur núna. Það sem hafði gerst var það að mál höfðu hlaðist upp því öll mál voru í rannsóknardeild. Við gerðum þær breytingar á vormánuðum að minniháttar mál eru rannsökuð af almennri deild þannig að það er verið að gera ennþá meiri kröfur til hins almenna lögreglumanns – sem að getur allt núna. Það þýðir það, að þó svo að rannsóknardeildin fái stórt og umfangsmikið mál, þá frestast ekki hin málin.


Við erum til dæmis með mjög öflugt starf núna í almennu deildinni út af þeim þjófnaðarmálum og innbrotum sem komið hafa upp síðustu daga og við lítum mjög alvarlegum augum.


Ég held að það skipulag sem við tókum upp fyrr á þessu ári, að það henti vel fyrir þessa starfsemi hér. Skipulagið gengur út á það að við erum með þrjár deildir, flugstöðvardeild, almenna deild og rannsóknardeild. Deildum var fækkað og þær þéttar og styrktar,“ segir Sigríður.


Hún segir embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum ekki standa eina í þessu máli sem nú er til rannsóknar. Embættið fáið aðstoð frá Ríkislögreglustjóraembættinu, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og frá lögreglustjóra Snæfellinga. Fjölmargar deildir lögreglu komi að málinu, eins og alþjóðadeild, greiningardeild og sérsveit.


Hægt er að hlusta á ítarlegra viðtal Víkurfrétta við Sigríði með því að sækja þessa hljóðskrá hér!



HLJÓÐSKRÁ [mp3] // Fréttamannafundur lögreglunnar á Suðurnesjum 22. október 2009

HLJÓÐSKRÁ [mp3] // Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri í viðtali



Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Ljósmynd: Ellert Grétarsson

Viðtal og mynd frá fréttamannafundi: Hilmar Bragi Bárðarson // [email protected]