Mansal: Varðhald framlengt um viku
Héraðsdómur Reykjaness ákvað nú síðdegis að verða við beiðni sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli og framlengja um viku gæsluvarðhald yfir fylgdarmanni fjögurra kínverskra ungmenna, sem voru stöðvuð í Flugstöðinni með ólögleg vegabréf, 17. maí.
Maðurinn er grunaður um að tengjast skipulagðri glæpastarfsemi við að smygla fólki á milli landa og jafnvel að það tengist mansali. Hann hafi átt að koma ungmennunum til Bandaríkjanna, en þau voru með vegabréf sem talið er víst að séu ekki þeirra eigin, gefin út í Singapúr.
Maðurinn er frá Singapúr og er á fimmtugsaldri. Að sögn lögreglu er málið að skýrast, rannsókn er á lokastigi og vonast menn eftir að henni ljúki í næstu viku.
Þetta kom fram í Ríkisútvarpinu í dag.