Mannslát á Garðvangi vegna mistaka
Gefinn rangur lyfjaskammtur sem ætlaður var herbergisfélaga
Karlmaður lést vegna mistaka sem gerð voru við umönnun hans á hjúkrunarheimilinu Garðvangi í Garði nú fyrir mánaðamótin. Banamein mannsins var rangur lyfjaskammtur, sem ætlaður var herbergisfélaga hans. Í kjölfarið var svo tekin ákvörðun um að gefa honum ekki mótefni og lést hann rúmri viku síðar. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Við vorum ekki á leiðinni að kveðja hann,“ segja nánustu aðstandendur mannsins. Börnin mannsins hafa samúð með starfsmanninum sem gerði mistökin sem kostuðu líf föður þeirra og segja þau undirmönnun eflaust hafa sitt að segja.