Manngildissjóður úthlutar 50 milljónum
Árleg úthlutun styrkja úr Manngildissjóð Reykjanesbæjar fór fram í Íþróttakaakademíunni í Reykjanesbæ í gær en þar voru afhentir styrkir fyrir 65 milljónir króna.
Framlög úr sjóðnum hafa aukist um 25% þar sem eigið fé sjóðsins var aukið um helming í byrjun árs.
Alls bárust sjóðnum 70 umsóknir um styrki í ár og nemur heildarúthlutun hans nú 50 milljónum króna. Undir Manngildissjóð falla m.a.: Íþróttasjóður, Tómstundasjóður, Listaverkasjóður, Menningarsjóður, Þróunarsjóður skóla, Forvarnarsjóður og Umhverfissjóður.
Við athöfnina var skrifað undir samtals 24 samninga og afhentir styrkir til 42 einstaklinga eða félagasamtaka. Auk þeirra fjármuna sem koma frá manngildissjóði var gengið frá nokkrum samningum m.a. við íþróttafélögin um rekstur íþróttasvæða en kostnaður við þá samninga koma beint úr bæjarsjóði. Heildarfjárhæð styrkja og samninga var því nokkru hærri en sú upphæð sem kom úr Manngildissjóði eða kr. 64.950 þúsund.
Hlutverk Manngildissjóðs er að veita fjárhagslegan stuðning, styrki og viðurkenningar til verkefna á sviði fræðslu, fjölskyldu- og forvarnarmála, menningar- og lista, umhverfismála, tómstunda- og íþróttamála eða til stuðnings verkefna í þágu mannræktar og aukins manngildis í Reykjanesbæ.
Úthlutun er í höndum viðkomandi fagráða og nefna á vegum bæjarfélagsins. Stjórn Manngildissjóðs hefur umsjón með þeim fjármunum sem í sjóðnum eru, gætir þess að ávöxtun sjóðsins sé eins góð og hún getur orðið á hverjum tíma og að lokum deila þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru á hverju ári milli þeirra sviða og undirsjóða sem síðan fara yfir umsóknir o9g styrkbeiðnir hvers árs.
Aukið fé sjóðsins á síðasta ári leiðir til þess að framlög úr sjóðnum nú aukast um 25% frá árinu 2007. Þannig úthlutar manngildissjóður nú alls 50 milljónum króna til ýmissa verkefna og samtaka sem öll eiga það sameiginlegt að bæta og auðga mannlífið í bænum.
Skipting sjóða:
Íþróttasjóður 19,5 milljónir
Þróunarsjóður skóla 10 milljónir
Menningarsjóður 8,5 milljónir
Tómstundasjóður 6 milljónnir
Forvarnarsjóður 5 milljónir
Umhverfissjóður 1 milljón
Texti af vef Reykjanesbæjar - VF-mynd/elg