Mannbjörg varð er bátur sökk úti fyrir Garðskaga
Mannbjörg varð er báturinn Húni KE sökk um 20 sjómílur norðvestur af Garðskaga í kvöld. Sólborg KE var næst slysstað, í 5 sjómílna fjarlægð og þegar báturinn kom að Húna KE sat skipverjinn á stefni bátsins, en báturinn maraði í hálfu kafi undir honum.
Kristján Guðmundsson stýrimaður á Sólborgu RE sagði í samtali við Víkurfréttir að ekki hefði mátt á tæpara standa þegar þeir komu að Húna KE þar sem hann maraði í hálfu kafi, en skipbrotsmaðurinn sat á stefni bátsins. Að sögn Kristjáns voru þeir um 30 mínútur á leiðinni að bátnum. „Þegar við komum að bátnum sat maðurinn á stefni bátsins og það mátti ekki á tæpara standa. Hann var mjög kaldur þegar við náðum honum um borð. Hann hafði engan tíma til að komast í galla og var á peysunni.“
Hannes Þ. Hafstein björgunarskip Sigurvonar í Sandgerði er á leið á staðinn þar sem báturinn marar í hálfu kafi og að sögn Agnars Trausta Júlíussonar skipstjóra á Hannesi ætla þeir að reyna að bjarga bátnum. Togarinn Vigri RE er einnig á staðnum og sagði Steingrímur Þorvaldsson skipstjóri að það væri erfitt að sjá hvort báturinn væri að sökkva meira. „Stefnið rétt stendur upp úr sjónum, það er ekki meira en það,“ sagði Steingrímur í samtali við Víkurfréttir.
Klukkan 19:47 í kvöld datt Húni KE út úr sjálfvirkri tilkynningaskyldu og þegar báturinn hafði ekki svarað ítrekuðum köllum Reykjavíkurradíós né svarað í farsíma um borð var haft samband við nærstadda báta og skip og þau beðin um að svipast um eftir honum.
VF-ljósmynd/HBB: Guðmundur Ólafsson formaður Sigurvonar og Birgir Haraldsson rýna í kort í björgunarmiðstöðinni í Sandgerði.