Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mannbjörg utan við Sandgerði
Þriðjudagur 20. september 2005 kl. 11:07

Mannbjörg utan við Sandgerði

Einn maður bjargaðist í morgun er bátur hans Þjóðbjörg GK-110 tók inn á sig sjó 13 sjómílur norðvestur af Garðskaga.  Nærstaddir bátar náðu til hans í tæka tíð.

Skipstjóri Þjóðbjargar GK-110 kallaði upp vaktstöð siglinga á rás 16 sem er neyðarútkallsrás skipa um kl. 9:20. Sagðist þurfa aðstoð því báturinn væri farinn að taka inn sjó. Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kölluðu til nærstaddra báta og óskuðu eftir að þeir héldu í átt til Þjóðbjargar.  Sá sem var næstur var 7 sjómílur í burtu frá Þjóðbjörgu og hélt hann þegar af stað.  Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út og björgunarbátur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Hannes Þ. Hafstein frá Sandgerði.  Einnig var kallað til varðskipsins Ægis sem var statt í norðanverðum Faxaflóa.  

Tveir af þessum bátum náðu til Þjóðbjargar um kl. 9:50 og var þá skipstjóri hennar kominn í björgunarbúning en ekkert amaði að honum.  Skömmu síðar kom þriðji báturinn á staðinn og TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar.

Báturinn Gunnþór ÞH-75 tók Þjóðbjörgu í tog og er á leið til með bátinn til Sandgerðis. Varðskipið Ægir og björgunarbáturinn Hannes Þ. Hafstein halda til móts við Þjóðbjörgu og Gunnþór til öryggis en þyrlan TF-LÍF sneri við þar sem hættan var liðin hjá.

Þjóðbjörg er 9 tonna plastbátur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024