Mannaskítur upp um niðurföll og drykkjarvatn saurmengað í Garði
Mannaskítur kom flæðandi upp um niðurföll að Garðbraut 78 í Garði í síðustu viku og drykkjarvatn í einu vatnsbóli í Garði er saurmengað. Ekki eru þó tengsl á milli mengunar í vatnsbólinu og þess atviks þegar skólp flæddi upp um niðurföll. Bæjaryfirvöld í Garði geta hins vegar ekkert aðhafst vegna framkvæmdabanns sem landeigendur settu á fráveitu- og vatnsveitumál í landi Gerða. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur þegar lokað vatnsbólinu.
Í miklum rigningum í byrjun síðustu viku fór að flæða upp um niðurföll hjá íbúum að Garðbraut 78. Það sem kom upp um niðurföllin var miður geðslegt en saur og skólpmengað vatn streymdi upp um öll niðurföll í miklu magni.
Álagið á fráveitukerfið varð of mikið í þeirri miklu rigningu sem gerði. Að sögn Ásmundar Friðrikssonar, bæjarstjóra í Garði, ræður fráveitukerfið í Garði ekki við allt það vatnsmagn sem kemur niður lögn við Heiðarbraut og skólp frá Túnahverfi kemst ekki leiðar sinnar þar sem þar sem það tengist inn á yfirfulla lögn. Til að bæta gráu ofan á svart myndaðist stífla í lögninni með þeim afleiðingum að skólp tók að flæða upp um niðurföll.
Eins og greint var frá hér á vf.is í morgun standa yfir viðræður milli Sveitarfélagsins Garðs og eigendur Gerða um kaup sveitarfélagsins á um 74 hekturum lands Gerða. Hefur sveitarfélaginu verið boðið landið á 232 milljónir króna. Eftir að slitnaði upp úr viðræðum um landakaupin settu eigendur Gerða framkvæmdabann á Sveitarfélagið Garð sem var að leggja nýjar skólp- og vatnslagnir í landi Gerða. Þar með eru fráveituframkvæmdir stopp og því mega íbúar áfram eiga von á því að skólp taki að flæða upp um niðurföll þegar yfirálag kemur á fráveitukerfið.
Skólp flæðir ekki bara upp um niðurföll, því mengun af völdum saurgerla er komin upp í vatnsbóli við Heiðarbraut í Garði. Þó svo Garður hafi tengst við nýja vatnsveitu og nýti sömu vatnsból og Reykjanesbær, þá eru ekki öll hverfi í Garði tengd inn á nýju vatnsveituna. Að sögn bæjarstjóra átti ný vatnslögn að fara í sama skurð og fráveitan en vegna framkvæmdabanns sem sett var á sveitarfélagið í landi Gerða, þá hefur ekki tekist að tengja nýja vatnslögn um allt sveitarfélagið.
Tilkynningar frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja vegna mengunar í vatnsbólinu í Garði er að vænta í dag.
Saur og skólpvatn flæddi upp um niðurföll við Garðbraut 78 í síðustu viku. Meðfylgjandi myndir eru teknar utan við íbúðarhúsið og eins og glögglega má sjá á myndunum er það miður geðslegt sem kemur upp um niðurföllin. Saur kom einnig upp um niðurföll inni í húsinu að sögn íbúa.
Skólptjörn myndaðist á planinu framan við Garðbraut 78.
Dælubíll var fenginn til að losa stíflu í fráveitukerfinu í Garði á mánudaginn í síðustu viku. Hér er losað úr dælubílnum í höfnina í Garði. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson