Mánaðarverkfall myndi spara sveitarfélögum 60 milljónir
 Sveitarfélögin á Suðurnesjum munu spara 60 milljónir króna í launakostnað ef verkfall kennara endist í mánuð.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum munu spara 60 milljónir króna í launakostnað ef verkfall kennara endist í mánuð.
Þar sem verkfallið virðist ekki ætla að leysast á næstunni og samningaviðræður hafa engan árangur borið er ekki laust við að einhverjir leiði hugann að því hvað sveitarfélög spari í launakostnað á meðan verkfalli stendur. 
Meðallaun grunnskólakennara eru um 250.000 krónur og 240 kennarar eru í verkfalli á Suðurnesjum. Þannig má glöggt sjá að ef verkfallið stendur í heilan mánuð, eins og fleygt hefur verið í umræðunni, verður sparnaður sveitarfélaganna heilar 60 milljónir.
Það er dágóð upphæð og má nefna sem dæmi að þessi upphæð myndi borga fyrir rúmlega 1 km af tvöföldun Reykjanesbrautar.


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				