Mamma fékk gistingu í steininum eins og sonurinn
Lögreglan á Suðurnesjum handtók á laugardagsmorgun rúmlega tvítugan karlmann sem lét ófriðlega fyrir utan skemmtistað í umdæminu. Hann var með kylfu innan klæða og gerði sig líklegan til slagsmála. Maðurinn var ógnandi í framkomu við lögreglumenn og neitaði að hlýða fyrirmælum þeirra um að yfirgefa vettvang. Hann var færður á lögreglustöð og kylfan haldlögð.
Skömmu síðar kom móðir mannsins, verulega ölvuð, á lögreglustöðina og heimtaði að fá son sinn með sér heim. Þegar henni var gert ljóst að af því gæti ekki orðið að svo stöddu brást hún ókvæða við með hrópum og spörkum. Hún var því einnig handtekin og vistuð á lögreglustöð meðan hún var að ná áttum.