Máli umhverfissóða vísað frá
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja stefndi eiganda iðnaðarhúsnæðis í Sandgerði fyrir dóm vegna kröfu upp á rúmar 1,2 milljónir króna. Krafan kom til vegna kostnaðar sem hlaust af því að hreinsa lóð hins stefnda sem ekki hafði orðið við tilmælum HES um að hreinsa lóðina, þrátt fyrir viðvaranir og ítrekanir í marga mánuði. Málið fór fyrir Héraðsdóm Reykjaness sem vísaði því frá dómi og er HES gert að greiða stefnda málskostnað upp á 150 þúsund krónur.
Sumarið 2007 hafði verið kvartað við HES um umgengi á lóð við Strandgötu í Sandgerði. Á næstu mánuðum beindi HES ítrekuðum tilmælum og viðvörunum til eiganda lóðarinnar um að hreinsa hana, að öðrum kosti myndi stefnandi neyta lagaheimildar til að láta hreinsa lóðina á kostnað eigandans. Hann varð ekki við ítrekuðum áskorunum um hreinsun lóðarinnar og í mars 2008 þraut þolinmæði HES. Samið var við verktaka um að sjá um hreinsun og koma úrgangi til förgunar. Var stefnda síðan sendur reikningur fyrir verkinu, förguninni og öðrum áföllnum kostnaði, samtals 1.245 þúsund kr. Þrátt fyrir innheimtutilraunir greiddi stefndi ekki reikninginn og neitaði greiðsluskyldu. Því var ákveðið að stefna honum fyrir dóm.
Hinn stefni krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi á þeirri forsendu að það væri ekki höfðað í réttu varnarþingi. Hann væri til heimilis í Kópavogi og því hefði átt að stefna honum fyrir dóm á þingstað dómsins í Hafnarfirði á heimilisvarnarþingi hans sem ekki hafi verið gert heldur hefði honum verið stefnt til að mæta í Keflavík.
Stefnandi vísaði til þess að heimilt hafi verið að stefna málinu inn á þingstað þar sem stefnandi hefur starfstöð.
Dómurinn féllst á rök stefnda og vísaði málinu frá dómi. Var HES gert að greiða stefnda 150 þúsund krónur í málskostnað.
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Horft yfir Sandgerði, Strandgatan nær.