Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Málefni Suðurnesjalínu 2 í eðlilegum farvegi - bæjarstjóri Voga svarar Landsneti
Bæjarstjórn Voga frá vorinu 2022. Gunnar Axel, nýr bæjarstjóri Voga er fyrir miðju í fremri röð.
Miðvikudagur 21. desember 2022 kl. 14:20

Málefni Suðurnesjalínu 2 í eðlilegum farvegi - bæjarstjóri Voga svarar Landsneti

„Það er auðvitað fráleitt að þurfa að sitja undir því að fyrirtæki í almannaeigu skuli halda úti heilli herdeild af almannatengslafólki sem virðist hafa það meginhlutverk að grafa undan faglegri og lögformlegri stjórnsýslu sveitarfélaga í landinu. Í þessari „frétt“ sem skrifuð er á fréttastofu Landsnets og fyrirtækið sendi út í morgun, þar sem starfsmenn fyrirtækisins taka viðtöl við hvort annað eins og um alvöru blaðamennsku sé að ræða, virðist eini tilgangurinn sá að villa um fyrir almenningi og reyna að stýra umræðu fjölmiðla fyrirtækinu í vil. Stjórnendur Landsnets vita fullvel að umrædd beiðni er í eðlilegum farvegi þar sem unnið er að því að tryggja vandaða og lögmæta málsmeðferð og ákvarðanatöku,“ segir Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga en Landsnet birti í morgun tilkynningu þar sem sveitarfélagið er gagnrýnt vegna málefna Suðurnesjalínu 2.

„Hvers vegna nú er trommað fram með „fréttaskrifum“ og vægast sagt vafasömum fullyrðingum um meint milljarðatap eftirlæt ég öðrum að geta sér til um. Það sem er satt og rétt í málinu er að Sveitarfélagið Vogar hefur aldrei á neinu stigi þessi máls lagst gegn bættu afhendingaröryggi raforku á svæðinu og hefur í því samhengi nákvæmlegu sömu hagsmuni að verja og önnur sveitarfélög á Suðurnesjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Víst stjórnendur Landsnets virðast nú hafa gleymt því þá er kannski ástæða til að rifja það upp að allar sveitarstjórnir sem koma að þessu máli veittu fyrirtækinu framkvæmdaleyfi árið 2015, þar með talið sveitarfélagið Vogar. Fyrirtækið var hinsvegar rekið til baka með málið með dómi hæstaréttar árið 2017 þar sem dómstólar bæði í héraði og hæstarétti komust að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði ekki sinnt skyldum sínum og undirbúið málið með þeim hætti sem lög kveða á um. Í stuttu máli sagt komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að það væri ekki tækt að Landsnet leggði bara mat á þá kosti sem fyrirtækinu hugnuðust best, þ.e. lagningu nýrrar línu samsíða þeirri eldri en tækju ekki aðra augljósa kosti til sambærilegrar skoðunar. 

Þá hafa aðrar leyfisveitingar tengdar þessu sama máli ítrekað verið úrskurðaðar ólögmætar, sbr. leyfisveitingar annarra sveitarfélaga sem eiga beina aðild að málinu. Að ætla að skrifa langvarandi tafir á lagningu nýrrar Suðurnesjalínu á Sveitarfélagið Voga er því hvorki sanngjarnt né í samræmi við staðreyndir málsins. Ef Landsnet hefði staðið rétt að málum væri ólíklegt að við værum yfir höfuð að ræða þetta mál í dag enda líklegt að framkvæmdinni væri þá löngu lokið.

Hitt er svo annað mál hvort það sé eðlilegt að fyrirtæki í almannaeigu sem hefur verið falið mjög ábyrgðarmikið hlutverk og hefur í raun algjöra einokunarstöðu þegar kemur að flutningskerfi raforku, skuli beita sér með þeim hætti sem það gerir og almenningur skuli vera látinn borga fyrir það áróðursstríð sem fyrirtækið er stöðugt í gagnvart lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnum á Íslandi. Við það set ég a.m.k. spurningamerki, enda hafa fæst sveitarfélög burði til að standa uppí hárinu á Landsneti í slíkri baráttu og eiga auðvitað ekki að þurfa að standa í slíku í samskiptum við fyrirtæki í opinberri eigu,“ segir bæjarstjórinn í Vogum.